Það voru 80 hressar stelpur sem mættu galvaskar í hlíðina fríðu í dag, harðákveðnar í að eyða saman skemmtilegum dögum. Þrátt fyrir bið eftir rútu komumst við á endanum á áfangastað, komum okkur fyrir, fórum yfir helstu reglur og svo hófst fjörið. Einhverjar kepptu í brennó, aðrar föndruðu, sumar æfðu fyrir kvöldvöku en það sem skipti öllu var að allar undu vel við sitt.
Grjónagrauturinn í kvöldmatnum vakti lukku meðal stelpnanna og borðuðu allar vel.
Kvöldvakan var skemmtileg þar sem hluti stelpnanna fékk að láta ljós sitt skína, mikið sungið og hlegið. Allt eins og það á að vera.
Þegar þetta er skrifað er komin ró í húsið og langflestar stelpnanna sofnaðar. Við hlökkum til ævintýra morgundagsins og látum heyra frá okkur annað kvöld.
Kveðjur frá öllum
Álfheiður forstöðukona