Í gær vöknuðu stelpurnar eldhressar enda veisludagur fram undan sem er alltaf mikill hátíðar- og gleðidagur. Eftir að morgunmat var svo loksins komið að því að keppa í úrslitum í brennómótinu. Það var Furuhlíð sem stóð uppi sem sigurvegarar og eru því brennómeistarar Unglingaflokks 2025. Brennómeistararnir fá svo að keppa við foringjana í dag.

Í hádegismatinn var boðið upp á grillaða hamborgara. Að loknum hádegisverði var komið að fánahyllingu og morgunstund með forstöðukonu. Í morgunstundinni ræddum við saman um mikilvægi þess að vera góð hvor við aðra og hvað orðin okkar geta haft mikil áhrif á fólk. Orðin okkar geta híft fólk upp en þau geta líka rifið fólk niður og því er svo mikilvægt að reyna að grípa sig áður en maður segir eitthvað sem maður sér eftir og ef maður segir eitthvað sem maður sér eftir að þá er alltaf hægt að biðjast afsökunar. Að sjálfsögðu sungum við líka helling af söngvum saman því að það er svo gott að byrja daginn á því að syngja.

Að lokinni morgunstund komu nokkrir gestir til okkar frá KSS en það er kristilegt félag fyrir fólk á aldrinum 15-20 ára. Þau hittast alltaf á laugardögum klukkan 20:30 á Holtavegi 28  og gera eitthvað skemmtilegt saman en hittingarnir eru opnir fyrir öllum á aldrinum 14 – 20 ára að mæta. Loks fórum við í Wicked leik þar sem að það er Wicked þemadagur hjá okkur í dag. Herbergin fóru því í ratleik um skóginn og leystu ævintýri og pössuðu að láta Oz verðina ekki ná sér.

Í kaffitímanum var boðið upp á jógúrtköku og kryddbrauð sem að sjálfsögðu sló í gegn. Loks fóru stelpurnar að gera sig til fyrir veislukvöldið sem framundan var. Við byrjuðum á því að fara í kirkjuna okkar hér í Vindáshlíð en þar var haldin Hlíðarmeyjar messa. Við sungum skemmtileg lög saman og áttum notalega stund þar sem við ræddum saman um mikilvægi vináttunnar og það að rækta hana er gott fyrir alla. Allir þurfa að eiga góðan vin til þess að hvetja mann áfram, til að ganga í gegnum erfiðleika með og til þess að gleðjast með. Vinur er spegill sem sýnir ekki útlit heldur innri mann.

Þegar að við vorum búnar í kirkjunni sungum við fánan niður og fórum í vefa mjúka sem er gömul og skemmtileg hefð í Vindáshlíð. Í veislukvöldmatinn var svo boðið upp á pizzur og djús og það var sko heldur betur borðað vel af því. Næst tók veislukvöldvakan við sem er oft hápunktur vikunnar hjá stelpunum en þá stíga foringjarnir á svið og eru með leikrit og var mikið hlegið. Þar sem að þetta var unglingaflokkur að þá enduðum við kvöldvökuna á því að sýna þeim myndband sem Gugga foringi var búin að vera taka upp og klippa í gegnum flokkinn. Stelpurnar voru ekkert smá ánægðar með það.

Í kvöldkaffi var boðið upp á eðlu með snakki en svo komu foringjarnir hoppandi inn og sungu „hæhó jibbý jeij það er komið veisludags partý“ og allar stelpurnar fóru aftur niður í kvöldvökusal og sungu og dönsuðu við nokkur lög áður en haldið var á hugleiðingu.

Í hugleiðingunni fengu svo stúlkurnar íspinna og heyrðu sögu frá henni Svnhildi um hvað orðin okkar geta haft mikil áhrif, bæði góð og slæm. Smá upprifjun frá morgunstundinni. Foringjarnir komu svo og enduðu hugleiðinguna á því að syngja fyrir stelpurnar góða nótt og sofið rótt lagið okkar. Það voru því mjög þreyttar stelpur sem sofnuðu hér í Hlíðinni eftir viðburðaríkan dag og flokk.

Í morgun fengu stelpurnar að sofa alveg til 10:30 en um kl. 11:00 var eldhúsið búið að græja brunch fyrir alla. Hér var á boðstólum egg, beikon og pönnukökur en svo var líka hægt að fá morgunkorn fyrir þær sem vildu. Núna eru stelpurnar í foringjabrennó en þar mæta brennómeistararnir í Furuhlíð foringjum Vindáshlíðar. Loks fara stelpurnar að pakka og halda upp í rútu heim á leið.

Á eftir fer rútan frá Vindáshlíð kl. 14:00 og verður því komin upp á Holtaveg 28 um klukkan 14:40. Þau ykkar sem ætlið að sækja stelpurnar ykkar upp í Vindáshlíð verðið því að sækja þær ekki seinna en 14:00. Endilega látið mig vita ef þið ætlið að sækja dömurnar ykkar, ef ég veit ekki af því nú þegar, svo að farangurinn lendi ekki óvart inn í rútunni. Það er hægt að hafa samband við mig í síma 566-7044.

Seinast en ekki síst minni ég enn og aftur myndirnar úr flokknum á eftirfarandi slóð: Myndir

Við í Vindáshlíð erum alveg rosalega þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæru stelpum í þessum geggjaða unglingaflokk sem var í ár. Stelpnanna verður sko saknað og vonumst til að sjá sem flestar aftur í Hlíðinni. Þessi flokkur fer sko klárlega í sögubækurnar okkar því við skemmtum okkur svo vel.

Bestu kveðjur,
Elísa Sif forstöðukona