Stelpurnar voru vaktar kl 8:30, fóru í morgunamat kl 9 og þar á eftir í stutta fánahyllingu úti á hlaði þar sem sunginn er fánasöngur og fáninn dreginn að húni. Klukkan 9:45 var svo haldið niður í kvöldvökusal þar sem stelpurnar sungu Vindáshlíðar lög og heyrðu stutta fræðslu um að það koma fallega fram við hvora aðra. Þá tók við brennó og broskeppni fyrir áhugasama. Í hádegismatinn var karrýfiskur og eftir hádegi var haldið af stað í göngu út að réttum í leiki.

Eftir nýbakaðar kræsingar í kaffinu fóru nokkur herbergi í brennókeppni, áhugasamar stelpur í stigahlaup og þrjú af herbergjunum undirbjuggu leikrit og leiki fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn var síðan ekta íslenskt skyr og brauð. Á kvöldvökunni vöktu stelpurnar í Birkihlíð, Lækjarhlíð og Hamrahlíð mikla lukku. Að kvöldkaffi loknu þar sem ávextir og bananabrauð voru í boði var svo kósý stund í setustofu þar sem hlustað var á stutta hugleiðingu frá foringja og kvöldsöngur Vindáshlíðar sunginn eins og flest önnur kvöld. Stelpurnar fengu síðan að tannbursta sig í læknum. Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu komum við stelpunum á óvart með hinu víðfræga stuðfyllta náttfatapartýi þar sem við dönsuðum, sungum og hlógum helling og sáum stórskemmtilegt leikrit sem endaði með íspinna/frostpinna og fallegri sögu sem var lesin. Bænakonurnar fylgdu síðan stelpunum inn á herbergin sín og komu þeim í ró fyrir svefninn. Frábær dagur að kveldi kominn og allar sváfu vært.