Frábær skýaður sunnudagur í Vindáshlíð.
Foringjar klæddir upp sem Spice girls vöktu stelpurnar með tónlist klukkan 9. Farið var að hylla fánann eftir morgunmat og stelpurnar völdu sig í hópa til að undirbúa guðþjónustuna. Eftir hádegi var hátíðleg guðþjónusta í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð þar sem leikhópur sýndu söguna af Jesú í storminum, sönghópur söng Gleði gleði, Skap í mér hreint hjarta og Með Jesús í bátnum. Skreytingarhópurinn bjó til og hengdi upp myndir og aðrar skreytingar og undirbúningshópurinn las bænir, kveikti í kertum, hringdi klukkum og bauð upp á kærleikskúlur síðar um daginn.
Keppt var áfram í brennói og nú fer að skýrast hvaða lið detta úr keppninni að verða brennómeistarar. Keppt var í langstökki og limbói. Stelpurnar eru byrjaðar að skiptast á að fara í sturtu. Á kvöldvöku sáu Furuhlíð og Reynihlíð um skemmtiatriðin og sungu m.a. fiðrildalagið vinsæla og Hlíðin með grænum hjöllum. Reynihlíð sýndi leikritið göngutúrinn og Furuhlíð sýndi Leikfimitímann. Mikil stemning og glatt á hjalla.
Stelpurnar fengu kókópöffs í tilefni sunnudags en einnig var boðið upp á seríos og kornfleks í morgunmat. Í hádegismat var lambalæri með grænum baunum, rauðkáli og fleiru tilheyrandi. Í kaffinu voru súkkulaðibitakökur og súkkulaðiskúffukaka. Í kvöldmatinn var skyr og smurt brauð og í kvöldkaffi skornir ávextir.
Stelpurnar heyrðu viðtal við nokkrar persónur úr Biblíunni, þau Abraham, konuna sem átti að gríta, holdsveika manninn, Davíð og samversku konuna við brunninn.