Þessi fallegi þriðjudagur er nú á enda. Talsvert kaldara var í veðri í dag og hvasst á köflum og rigndi lítillega um miðjan daginn. Stúlkurnar vöknuð klukkan 9, borðuðu seríos, kornflex og hafragraut í morgunmat og hylltu svo íslenska fánann þegar hann var dreginn að húni. Biblíulestur var á sínum stað og eftir hann voru undanúrslitin í brennó. Í hádegismat fengum við lasagna og nýbakað hvítlauksbrauð og salat og borðuðu stúlkurnar mjög vel. Eftir hádegi var frjáls stund áður en leikurinn Ævintýrahúsið hófst. Stúlknahópnum var skipt í hópa eftir svefnherbergjum og fór hver hópur með bundið fyrir augu á milli ýmissa skringilegra staða og hittu sögupersónur á við Þyrnirós, nornina í Hans og Grétu og Kobba kló í sögunni um Pétur Pan. Á ferð sinni inn og út úr húsinu svifu að þeim draugar og slíkar verur sem gerðu allt sitt til að hrekkja stúlkurnar. Var það í takt við þema dagsins sem var Halloween (hrekkjavaka) og fjölmargar völdu sér búninga úr búningasafni staðarins sem þær klæddust í tilefni dagsins. Í kvöldmat fengum við fyllt pizzabrauð og ávaxtasúrmjólk og kláraðist hver einasta arða (þótt mikið hafi verið búið til). Ekki var hefðbundin kvöldvaka heldur fór fram spurningakeppnin Éttu Pétur þar sem herbergin kepptu. Þrjú herbergi urðu efst og jöfn enda mjög greindar stúlkur í þessum flokki. Kvöldkaffið samanstóð af ávöxtum, mjólkurkexi og mjólk. Hugleiðingin var svo flutt í setustofunni að vanda, kvöldsöngur Vindáshlíðar sunginn og svo fóru stúlkurnar hver í sitt rúm, lúnar eftir daginn.
Myndir dagsins eru
hér.
Kveðja,
Auður Páls, forstöðukona