Í morgun vöknuðum við í sól og fallegu veðri. Vakið var klukkan 10 og eftir morgunmat og biblíulestur fór úrstlitaleikurinn í brennó fram milli tveggja efstu liða. Í hádeginu fengum við Nachos-súpu með flögum og rifnum osti og vakti hún mjög mikla lukku. Eftir hádegi keppti vinningslið stúlkna í brennó við foringjaliðið og ætlaði þakið af húsinu þegar liðin fengu mesta hvatningu. Eftir kaffi var hárgreiðslukeppni og byrjuðu stúlkurnar svo að pakka sínu farangri og undirbúa sig fyrir veislukvöldverð. Hann var svo haldinn í fallega skreyttum matsalnum með bleikum dúkum og punti úr náttúrunni. Hátíðarkvöldvakan var svo í umsjón foringja og forstöðukonu þar sem foringjar sýndu leikslistar- og sönghæfileika sína svo um munaði. Söngurinn var bæði kröftugur og fallegur, stúlkurnar búnar að læra mörg lög og orðnar þjálfaðar í keðjusöng sem hljómar mjög fallega. Hugleiðing var að venju í seturstofunni en þangað fengu stúlkurnar svo íspinna sem þær gæddu sér á áður en farið var til koju.
Þetta var líflegur en hátíðlegur dagur í fallegu veðri hérna í Vindáshlíð, stað sem hefur sérstakan sjarma sem engan fær ósnortið.
Myndir dagsins eru
hér.
Kveðja,
Auður Páls forstöðukona