Úrslitaleikurinn í brennó var eftir biblíulestur og fengu brennómeistararnir að keppa við foringjana sem voru málaðir skringilega í framan. Stelpurnar fengu að hoppa á hoppudínu úti á túni og eftir kaffi gafst öllum stelpunum tækifæri til að taka þátt í hárgreiðslukeppninni, keppt var í fjórum flokkum: Flottasta greiðslan, asnalegasta greiðslan, krúttlegasta greiðslan og frumlegasta greiðslan.
Farið var á slaginu 6 að sækja fánann eins og hefð er fyrir á veisludegi í Vindashlíð. Allar voru prúðbúnar og á leiðinni til baka var farið í skrúðgöngu og "vafið mjúka, dýra dúka". Borðaður var veislumatur í kjölfarið í veisluskreyttum matsalnum. Um kvöldið var veislukvöldvaka þar sem foringjar sáu um skemmtiatriðin.
Um morguninn fengu stelpurnar að kynnast ávexti heilags anda og hvernig Guð er þríeinn Guð. Um kvöldið fengu þær að heyra hvernig Jesús hafði áhrif á líf Sakkeusar, svo að hann borgaði öllum fjórfalt til baka sem hann skuldaði.
Nú er runninn upp brottfarardagur og stelpurnar eru búnar að pakka og eru að borða morgunmat. Næst fara þær á lokastund uppi í Hallgrímskirkju og svo er farið með rútunni heim klukkan 11:00. Við ættum því að vera komin í bæinn klukkan 12:00.