Helgarnámskeið fyrir foreldra og börn þeirra um uppeldi og jákvæð samskipti verður haldið í Vindáshlíð dagana 29.-31. janúar.
Námskeiðið sem er sérstaklega ætlað foreldrum sem eiga erfitt með að nýta sér hefðbundna foreldrafræðslu. Þá þegar er orðið fullt á námskeiðið en þar er lögð áhersla á notalega og uppbyggjandi samveru fjölskyldunnar og fjallað um áhrifaríka uppeldishætti og leiðir til að leysa ágreiningsmál.
Námskeiðið er byggt á námskeiði með sama nafni sem haldið hefur verið undanfarin ár, þá öllum opið. Um vandaða dagskrá er að ræða og hefur námskeiðið hlotið viðurkenningu Heimilis og skóla sem og fengið mjög jákvæð ummæli þátttakenda.
Yfirumsjón með námskeiðinu hafa Hrund Þórarinsdóttir djákni, MA í uppeldis- og menntunarfræði og stundakennari við Háskóla Íslands og dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir MA í uppeldis- og menntunarfræði, PhD í fötlunarfræði og lektor við Háskóla Íslands. Fræðslan byggir annars vegar á áratugalöngum rannsóknum dr. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur prófessors og unnið er út frá námsefninu Samvera. Ræðum saman: Heima eftir dr. Sigrúnu Aðalbjarnardóttur og Árnýju Elíasdóttur og hins vegar á rannsóknum dr. Hönnu Bjargar Sigurjónsdóttur og dr. Rannveigar Traustadóttur um seinfæra foreldra og börn þeirra en þær hafa skrifað bækurnar Ósýnilegar fjölskyldur: Seinfærar/þroskaheftar mæður og börn þeirra og Umdeildar fjölskyldur auk fjölda greina og bókakafla um þetta efni.