Það gekk heldur betur margt á hjá stelpunum okkar á sunnudaginn. Þar sem það var sunnudagur er hefð fyrir því að hafa guðþjónustu í kirkjunni okkar þar sem allir taka þátt. Strax eftir morgunmat fengu stelpurnar að velja sér hópa; leikhópur, sönghópur, skreytingarhópur og bæna-og undirbúningshópur stóðu í boði. Stelpurnar unnu með natni að sínum verkefnum og æfðu söng og leik fram að hádegi. Í hádeginu voru dýrindis kjúllaleggir. Messan hófst svo um tvöleitið. Í kirkjunni var mikið sungið og fengu stelpurnar að heyra um sögu kirkjunnar, heyrðu um mennina sem byggðu hús sín á bjargi og sandi og sáu leikþátt um miskunsama Samverjann. Sumar fengu að hringja bjöllum eða kveikja á kertum og allar gerðu eitthvað fyrir guðþjónustuna okkar.
Eftir kökutímann (ekki drekka þær kaffi) voru brennó og íþróttakeppnir á sínum stað og í gær var það sko kraftakeppni og mæling á stærsta brosinu. Það sem helst gerðist spennandi þennan dag var óvænta náttfatapartýið um kvöldið. Þegar stelpurnar héldu að þær væru að fara (heldur snemma) í háttinn var það nefninlega alls ekki svo heldur var blásið til partýs í setustofunni okkar með leikjum og skemmtiatriðnum og óvæntum gestum. Myndir síðustu daga koma vonandi fljótlega inn hjá okkur en dagurinn var viðburðarríkur og skemmtilegur og hafa stelpurnar okkar það ljómandi gott! 🙂