Það var eðalhópur stúlkna sem mætti í Hlíðina um hádegisbilið í gær, tilbúinn að takast á við hvaða ævintýri sem að höndum bar. Það tók sinn tíma að koma öllum stúlkunum, með sinn mikla farangur, fyrir en þær voru fljótar að finna sig heima.
Í hádegismatinn fengu stelpurnar plokkfisk og rúgbrauð sem féll vel í kramið og borðuðu allir nægju sína. Því næst héldu allar stelpurnar í ævintýralegan ratleik þar sem þær drukku m.a. ógeðisdrykk, leystu úr flækjum og kynntust Vindáshlíð. Það voru því svangar stelpur sem komu inn úr ratleiknum og fengu sér jógúrtköku, ávexti, kex og djús.
Eftir kaffitímann hófst síðan brennókeppnin en í lok vikunnar mun eitt herbergi standa uppi sem sigurvegari og keppa við foringjana. Einnig kepptu stelpurnar í kraftakeppni, gerðu vinabönd, undirbjuggu kvöldvöku og sitthvað fleira.
Í kvöldmatinn var grjónagrautur og slátur sem að stelpunum líkaði vel. Á kvöldvökunni sýndu stúlkurnar leikræna hæfileika sína og sungu vel valda Hlíðarsöngva. Á hugleiðingunni lærðu þær síðan um að Jesús er hirðirinn okkar og honum þykir vænt um hverja og eina.
Í lok dagsins fengu stelpurnar kvöldkaffi og burstuðu tennurnar í læknum áður en þær hófu leit að bænakonunum sínum. Það voru þreyttar en sælar stúlkur sem að lögðust á koddann hérna í Hlíðinni í gærkvöldi, spenntar að takast á við ævintýri vikunnar.