Stúlkurnar 101 héldu Kvenréttindadaginn hátíðlegan í Vindáshlíð með pompi og prakt og margar klæddust bleiku eða rauðu í tilefni dagsins.
Á Biblíulestrinum fengu þær að heyra að þær eru dýrmæt sköpun Guðs, að hver og ein þeirra er einstök og að Guð þekkir þær og elskar.
Í hádegismatinn fengu þær hakk og spaghetti að ítölskum sið og sló það rækilega í gegn.
Skömmu eftir hádegisverð var svo ,,Kvennahlaup Vindáshlíðar" þar sem stúlkurnar hlupu Hlíðarhlaup og í framhaldi að því gekk hópurinn annars vegar upp á Írafell og hins vegar að réttum. Stúlkurnar sameinuðust síðan í kaffihressingunni og fengu þær bleikar rúsínubollur ásamt sjónvarpsköku og tóku sér hvíld í göngunni til að sporðrenna þeim.
Í eftirmiðdaginn voru brennókeppnir, íþróttakeppnir og þar á meðal keppni í hver gæti brosað breiðast. Einnig fengu stúlkurnar að búa til vinabönd.
Í kvöldverð var svo bleikt skyr ásamt brauði.
Það voru eftirvæntingarfull andlit sem mættu forstöðukonu þegar hún hringdi bjöllunni um kvöldið og þóttust sumar stúlkurnar vera vissar um hvað væri í vændum. Það kom þó mörgum á óvart þegar þær komust að því að það var ,,Ævintýralegt ævintýrahús". Í ævintýrahúsinu mættu þær meðal annars andanum úr Aladdín, Gísellu úr Enchanted, Skara úr Konungi ljónanna, vondu stjúpu Mjallhvítar, Öskubusku, Hades, Hringjaranum frá Notre Dame, Dýrinu (úr Fríða og Dýrið) og síðast en ekki síst sá Mikki mús um stúlkurnar niðri í kvöldvökusal á meðan þær biðu eftir því að vera sóttar af sérlegum leiðsögumönnum ævintýrahússins.
Að ævintýrahúsi loknu sungu stúlkurnar saman og hlýddu á hugleiðingu. Því næst var kvöldkaffi og svo háttatími og boðið var upp á tannburstun í læknum.
Eftir að hafa átt stund með bænakonum sofnuðu stúlkurnar mjög fljótt og sváfu vel og lengi.
Það ríkir mikil gleði í Vindáshlíð núna, mikið er um að vera og stúlknahópurinn er sérlega öflugur og jákvæður.