Þegar stúlkurnar vöknuðu um morguninn voru þær allar orðnar Hlíðarmeyjar þar sem þær höfðu nú gist í þrjár nætur hér í Hlíðinni fríðu.
Að því tilefni fengu þær kókópuffs í morgunmat ásamt hinum hefðbundna morgunmati.
Að morgunmati loknum héldu stúlkurnar á Biblíulestur þar sem þær fengu að heyra söguna af því þegar Jesús lægði storminn. Nokkrar stúlknanna fengu það hlutverk að leika söguna fyrir hópinn og stóðu þær sig mjög vel í hlutverkum sínum.
Eftir Biblíulestur kepptu þær í stigahlaupi og brennó og boðið var upp á vinabandagerð og kort.
Í hádegismatinn fengu stelpurnar sænskar kjötbollur með kartöflumús, sósu og rabarbarasultu og ávaxtasafa að drekka.
Stúlkurnar voru svo beðnar um að hafa sig til fyrir Sandfellsgöngu og koma inn í matsal en þar var þeim komið á óvart með leiknum ,,Á flótta“ (sem mikil eftirvænting hafði verið fyrir). Veðrið var frábært og stelpurnar hlupu um Hlíðina og reyndu að komast undan svartklæddum hermönnum sem reyndu að taka þær til fanga.
Í kaffitímanum fengu stúlkurnar heilsubitasmákökur og kryddbrauð með smjöri og mjólk að drekka og þar var rætt örlítið við þær um aðstæður flóttamanna í heiminum, í tengslum við leikinn sem þær höfðu verið í.
Því næst héldu stelpurnar áfram að keppa í stigahlaupi og í íþróttahúsinu var boðið upp á listasmiðju og ýmsa boltaleiki. Einnig voru margar sem léku sér í frjálsum leikjum í góða veðrinu.
Í kvöldmatinn fengu stelpurnar pylsupasta með ostasósu, tómatsósu og salati.
Þegar bjöllunni var hringt um kvöldið þustu stúlkurnar niður í kvöldvökusal. Þar hittu þær McGonagall og Dumbledore sem buðu þær velkomnar í Hogwarts og létu flokkunarhattinn sjá um að segja til um á hvaða heimavistir þær færu. Heimavistirnar fóru svo út úr kvöldvökusalnum, hver af annarri, með kort í hönd og lentu stúlkurnar í ýmsum ævintýrum þar sem þær mættu meðal annars Harry Potter, Hermione, Snape, Draco Malfoy, Sirius Black, vitsugum og fleirum. Þegar þær höfðu leyst öll verkefnin sem kortið hafði leitt þær að héldu þær í átt til aparólu og þar beið þeirra brenna. Á brennunni fengu þær kvöldkaffi, sungu og hlýddu á hugleiðingu þar sem þær lærðu um mikilvægi vináttunnar.
Því næst burstuðu þær tennur í læknum og höfðu sig til í háttinn. Bænakonur komu svo inn á herbergin og luku deginum með stúlkunum.
Mikil sköpunargleði einkennir stúlknahópinn og hafa sum herbergin komið bænakonum sínum skemmtilega á óvart með frumsömdum lögum og jafnvel dönsum.