Vel viðrar á okkur nú í Hlíðinni. Í gær fengum við þetta fína veður fyrir Sandfellsgönguna. Í fyrstu voru nú margar á því að þær gætu aldrei gengið upp á þetta fjall og beittu hugmyndafluginu til að finna ástæður fyrir því að sleppa við gönguna. Forstöðukonan ákvað að þær sem þyrðu með henni alla leið upp á topp fengju af sér mynd sem yrði sett á vefinn. Á endanum voru það 50 stoltar stúlkur sem stóðu á toppnum á Sandfelli, heldur en ekki ánægðar með sig. Þær sem ekki fóru upp fjallið gengu hringinn í kring um það og fengu því líka góða hreyfingu.
Í kaffitímanum var sunginn afmælissöngur Vindáshlíðar til heiðurs einni stúlkunni sem átti afmæli. Henn voru svo færð blóm og ýmsar gjafir, s.s. fallegir steinar sem stelpurnar fundu upp á að gefa henni. Í kvöldmatinn var hakk og spagettí sem allar höfðu bestu lyst á eftir útiveruna.
Á kvöldvökunni voru skemmtiatriði í umsjá stúlkna úr tveimur herbergjum, eins og venja er. Þær sýndu leikrit og stýrðu skemmtilegum leikjum. Hópurinn er talsvert búinn að hristast saman og sést ekki lengur hverjar komu saman og hverjar komu einar. Það er ekki hægt að sjá annað en að þær skemmti sér konunglega.