Á sunnudaginn var ekki jafn sólríkt og daginn áður, en þó rigndi ekki svo við bíðum spenntar eftir næsta góðviðrisdegi. Dagurinn hófst á því að skipt var upp í hópa til að undirbúa messuna okkar í kirkjunni. Stelpurnar fengu að velja um fjóra hópa; bæna- og undirbúningshóp, leiklistarhóp, sönghóp og skreytingarhóp. Þær tóku allar þátt í að gera messuna fallega sem var síðan klukkan tvö; sumar kveiktu á kertum eða fengu að hringja klukkunum, aðrar léku leikrit um miskunnsama Samverjann og margar fluttu frumsamdar bænir eða sungu. Guðþjónustan okkar heppnaðist einstaklega vel og stelpurnar fræddust um fegurðina í sköpuninni, náttúruna og ábyrgð okkar gagnvart jörðinni.
Við brutum svo upp dagskrána með því að efna til hæfileikasýningar eftir kaffitímann (kökutímann!) og það er alveg á hreinu að margar af stelpunum eru stjörnur framtíðarinnar; á sýningunni voru stúlkur úr flokknum sem sungu fyrir hópinn, dönsuðu, fluttu brandarar og fleira á milli þess sem foringjar léku kynna með tilheyrandi skemmtiatriðum inn á milli. Seinna um daginn voru síðan brennókeppnirnar á sínum stað og kvöldvakan skemmtilega. Stelpurnar fengu að bursta tennurana í læknum en veðrið hefur verið það gott hjá okkur að þær hafa fengið að fara í lækinn öll kvöld. Óvænt náttfatapartý þar sem foringjar sáum um skemmtiatriði átti sér síðan stað þegar þær bjuggust við háttatíma svo dagskráin var heldur betur fjölbreytt og fóru allir sáttir að sofa eftir daginn.

Myndir hér 🙂