Þriðjudagurinn hjá okkur í 6. Flokki var rugldagur. Hann byrjaði á því að við sussuðum og svæfðum í stað þess að vekja um morguninn og fyrsta máltíð dagsins var kvöldkaffi. Hlíðarhlaupið átti sér stað þennan dag fyrir hádegi og þá var hellirigning en fáir létu það á sig fá. Kvöldmaturinn var um hádegisbil og bænaherbergi sem venjulega eru að kvöldi dags voru strax á eftir, með röngum bænakonum. Kvöldvakan var rétt eftir kaffitímann og eftir kvöldmatinn, sem var hádegisverðurinn, var Lífsgangan.

Lífsgangan er þannig að stúlkurnar safnast saman á einum stað, ein fer í einu út með bundið fyrir augun og fetar sig eftir reipi sem er leitt um skóginn og að endastöð. Þessi ganga á að vera táknræn fyrir lífið, erfiðleika sem bjáta á og haldreipið Jesú sem leiðir okkur rétta leið.

Í dag, miðvikudag, er veisludagur í Vindáshlíð og í tilefni þess fengu stelpurnar gott útsof í morgun. Hamrahlíð urðu brennómeistarar í gær og kepptu við foringja eftir hádegismat en foringjarnir unnu. Í kvöld verður svo veislukvöldverður þar sem allt verður skreytt og fallegt, pizza á boðstólum og eftir það kvöldvakan góða þar sem foringjar sjá um skemmtiatriðin. Flokkurinn hefur gengið eins og í sögu og þökkum við pent fyrir okkur og frábærar stelpur.

Allar myndir úr flokknum hér 🙂