Gærdagurinn var frábær í alla staði, sól og sumar, vatnsstríð, brennó og Guðsþjónusta sem stelpurnar sáu um að skipuleggja og aðstoða í.
Í stað biblíulesturs fóru stelpurnar í hópavinnu til að skipuleggja Guðsþjónustuna sem var haldin síðar um daginn. Í hádeginu var boðið upp á þrenns konar skyr, venjulegt, jarðaberja og bláberjaskyr og brauð með áleggi.
Eftir hádegi var Guðsþjónustan og í stað þess að hafa hana í kirkjunni í góða veðrinu var hún haldin úti undir berum himni. Þar var þeim sagt frá sögu Hallgrímskirkju og hvernig hún komst hingað til okkar í Vindáhslíð. Leikhópurinn sýndi leikritið um týnda soninn og stóðu sig með stakri prýði sem og hinir hóparnir sem voru sönghópur, undirbúningshópur og skreytingahópur.
Fyrir kaffið var haldið vatnsstríð til að kæla stelpurnar í heita veðrinu, en eftir það fengu þær nýbakaðar brauðbollur og sjónvarpsköku. Eftir kaffi fengu þær frjálsan tíma og voru margar sem völdu sér það að vera inni, fyrir sumar var hitinn of mikill og þá fundu þær að þær vildu vera pínu inni.
Í kvöldmat voru pítur sem stelpurnar borðuðu með bestu lyst. Kvöldvakan var að venju mjög skemmtileg. Þegar bænakonur áttu að koma inn til stelpnanna var þeim komið á óvart með svakalegu náttfatapartý þar sem við fengum Gilsbakkasystur í heimsókn sem færði þeim ís.
Stelpurnar voru mjög þreyttar eftir daginn og fengu því að sofa lengur í morgun til að vera endurnærðar til að takast á við nýjan dag.
Internetið í dag var að stríða okkur og það er ástæða seinkunar á fréttinni. Myndirnar koma einnig síðar í dag.