Vegna mikilla anna gleymdist hreinlega að skrifa frétt í gær og því verður skrifað um tvo daga núna.
Dagur 4 var menningardagur í Vindáshlíð, það voru haldnar kynningar á þremur löndum, þar sem þær fengu að kynnast tungumálinu og sögu hvers lands. Löndin sem voru kynnt voru Palestína, Rússland og Kenýa. Foringjarnir voru allir klæddir sem mismunandi land og vakti þetta ótrúlega mikla lukku hjá bæði foringjum og stúlkum.
Fyrir hádegi fóru þær í svokallað workshop, þær máttu velja sér hópa og þetta var líka mjög vinsælt. Hóparnir sem voru í boði voru sönghópur, danshópur, listahópur og baksturshópur. Um kvöldið var svo afreksturinn sýndur í kvöldvöku og í kvöldkaffi snæddu þær á því sem baksturshópurinn hafði gert.
Gærdagurinn var svokallaður dekurdagur. Hann var með hefðbundnu sniðið fyrir hádegi með brennó og íþróttum og biblíulestri. Stelpurnar eru ótrúlega duglegar að hlusta og það gerir stundirnar fyrir starfsfólkið mjög þægilegar.
Eftir hádegi var svo komið að dekrinu, þá var í boði naglalökkun, förðun og nudd. Þar var stelpunum boðið leiðsögn í öllu þessu, vinsælast var nuddið og voru mjög margar sem lærðu nudd og nýttu sér það svo í að nudda herbergisfélagana. Förðunin gekk líka vel og þær mjög öruggar í því enda höfðu þær ekki margar spurningar hvað varðar það.
Um kvöldið fengu þær svarta plastpoka og ýmis önnur efni til að hanna föt og átti hvert herbergi að hanna 1-2 flíkur og sjá um förðun og hár á módeli. Síðan var haldin tískusýning sem gekk vonum framar, þessar stelpur eru allar ótrúlega hugmyndaríkar. Síðan héldu foringjar leikrit fyrir þær sem stúlkunum fannst alveg ótrúlega fyndið.
Stelpurnar hafa verið að fara frekar seint að sofa og því hafa þær fengið útsof báða þessa morgna svo allir verið úthvíldir til að takast á við komandi dag. En hér líður öllum vel enda ekki annað hægt hér í fallegu Hlíðinni.
Enn er síðan að stríða okkur og því hafa myndirnar ekki enn getað verið sett inn.