Dagurinn byrjaði eins og allir dagar í Vindáshlíð með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri þar sem þær lærðu um að hver og ein væri góð og falleg sköpun Guðs. Eftir það fóru stelpurnar ýmist í brennó eða íþóttakeppnir þar sem keppt var í brosi og stigahlaupi.

Eftir hádegismatinn þar sem boðið var upp á pulsur tók við förðunar-, hárgreiðslu- og búningakeppni niður í íþróttahúsi þar sem stelpurnar hönnuðu kjól úr svörtum ruslapoka. Í lokin var haldin tískusýning. Margar höfðu mikið hugmyndaflug og stórkostlegt að sjá útkomuna hjá stelpunum.

Í kaffinu fengu stelpurnar köku og bananabrauð og voru orðnar svangar eftir alla sköpunaragleðina sem ríkti í íþróttahúsinu. Eftir kaffi var svo keppt í brennó, farið í íþróttakeppnir, eða setið í setustofu og hnýtt vinabönd.

Eftir að hafa snætt plokkfisk í kvöldmatinn var næst á dagskrá hinn frægi Harry Potter leikur sem vakti mikla lukku. Stelpurnar fóru um svæði Vindáshlíðar og á leiðinni hittu þær ýmsar persónur ásamt því að leysa saman þrautir og ýmis verkefni. Eftir leikinn lærðu stelpurnar um hann Sakkeus áður en hver og ein lagðist á koddann sinn og sofnaði.

Myndir frá deginum má sjá
hér.

Kv. Ingibjörg forstöðukona