Á fimmtudaginn komu 81 eldhressar og skemmtilegar stelpur í Vindáshlíð. Þegar stelpurnar komu upp í Vindáshlíð var byrjað að skipta þeim í herbergi og passað vel upp á að allar fengju sitt rúm með sínum vinkonum. Eftir að það var búið fékk hvert herbergi sína bænakonu sem sá um að hjálpa þeim að koma sér fyrir og kynna staðinn fyrir þeim. Í hádegismatinn fengu stelpurnar sveppasúpu og brauð og tóku þær vel til matar síns enda svangar eftir rútuferðina.
Eftir hádegismat fóru stelpurnar á hinar ýmsu stöðvar og fóru í skemmtilega leiki, hópmyndatökur og fleira í umsjá foringjanna. Í kaffinu fengu þær gulrótaköku og kryddbrauð ásamt mjólk. Eftir kaffi fór brennókeppnin af stað, haldin var broskeppni og stelpurnar undirbjuggu atriði fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn var hakk og spagettí sem allar borðuðu með bestu lyst.
Á kvöldvökunni sáu stelpurnar um skemmtiatriðin og var gaman að sjá hvað þær eru allar hæfileikaríkar. Í kvöldkaffinu var boðið upp á kex og ávexti og eftir það heyrðu stelpurnar söguna um Mörtu og Maríu og hversu mikilvægt það væri að hlusta á Jesú. Eftir að hafa farið út í læk og tannburstað tennurnar fóru bænakonur inn í hvert herbergi og áttu góða stund með stelpunum. Ekki var allt fjör búið enn þar sem foringjarnir tóku sig til og klæddu sig í náttföt og skelltu klósettpappír í hárið og héldu náttfatapartý. Það var dansað upp á borðum, stelpurnar heyrðu söguna um Ole og Gilsbakkasystur komu í heimsókn með þýska skiptinemann sem gaf öllum stelpunum ís. Að lokum sungu foringjarnir Góða nótt og sofið rótt og allar stelpurnar sofnuðu sælar eftir fyrsta daginn hérna í Vindáshlíð.

Dagur 2 hófst með látum. Þar sem að við erum í ævintýraflokk þá var öskudagur í gær og foringjarnir klæddu sig í hin ýmsu gervi. Á göngum hússins mátti sjá Kalla kanínu, Línu langsokk, tollvörðinn, gömlu konuna, Kalla úr súkkulaðiverksmiðjunni og fleiri góða. Stelpurnar létu ekki sitt eftir liggja og fóru í búningaherbergið og klæddu sig upp. Eftir morgunmatinn fóru stelpurnar á Biblíulestur og lærðu um Biblíuna og að hún væri okkar leiðarvísir í lífinu. Brennókeppnin er í fullum gangi og er mikil spenna í loftinu yfir hvaða herbergi muni hljóta titilinn „Brennómeistarar 3. flokks 2011“ og keppa við foringjana. Keppt var í rúsínuspýtingum og sumar stelpur gerðu vinabönd. Í hádegismatinn var plokkfiskur og rúgbrauð. Í útiverunni fóru stelpurnar í svokallaða Lífsgöngu þar sem þær þræddu skóginn í Vindáshlíð þar sem þær héldu í bandið sem var hönd Jesús með bundið fyrir augun. Það var skemmtilegt að taka treflana og slæðurnar frá augunum á stelpunum og sjá hvað þeim fannst þetta skemmtilegt og mikil upplifun. Í kaffinu var boðið upp á jógúrtköku og kanillengjur. Eftir kaffi var boðið upp á vinabandagerð, brennó og íþróttakeppnir ásamt undirbúningi fyrir kvöldvöku. Stelpurnar fengu fjólublátt skyr í kvöldmat ásamt pizzabrauði sem sló algjörlega í gegn. Um kvöldið fór svo fram hæfileikakeppnin Vindáshlíð’s got talent og sýndu stelpurnar hvaða hæfileikar búa í þeim. Dómararnir voru ekki af verri endanum enda kíkti Justin Bieber í heimsókn og brutust út mikil fagnaðarlæti. Eftir kvöldkaffið, þar sem foringjar og stelpur dönsuðu af lífi og sál, heyrðu stelpurnar söguna um Móses og hvernig Guð hafði gefið honum ákveðið hlutverk. Flestar stelpurnar skottuðust svo út í læk og burstuðu tennurnar og biðu spenntar eftir bænakonunni sem endaði daginn með þeim.
Veðrið í Vindáshlíð hefur verið jafn ævintýralegt og flokkurinn er. Aðra stundina er glampandi sól og hina grenjandi rigning. Við látum þetta hins vegar ekki á okkur fá og höldum áfram að skemmta okkur.
Bestu kveðjur úr Hlíðinni!