Hér í Vindáshlíð flýgur tíminn áfram og ótrúlegt að hugsa til þess að flokkurinn sé senn á enda. En dagskráin heldur áfram og eftir langan dag á undan var ákveðið að sofa lengur. Þegar stelpurnar komu í morgunmat þar sem boðið var upp á egg og bacon ásamt venjulegu morgunkorni tóku enskumælandi foringjar á móti þeim sem sungu borðsönginn á ensku. Eftir að hafa hámað í sig gómsætan morgunmat var farið beint á biblíulestur. Á biblíulestri lærðu stelpurnar um bænina og hvernig hún er okkar verkfæri til þess að tala við Guð. Eftir biblíulestur hélt brennókeppnin áfram og keppt var í stígvélasparki úti á túni. Einnig var vinabandagerð í boði ásamt smá afslöppun. Í hádegismatinn var boðið upp á pylsur sem féllu vel í kramið hjá stelpunum. Eftir hádegi var stelpunum síðan hóað inn í setustofu og þá var komið að hinum langþráða hermannaleik. Leikurinn heitir réttu nafni „Á flótta“ og var mikil eftirvænting í stelpunum. Í leiknum klæða foringjarnir sig upp sem hermenn og upphefst mikill eltingarleikur. Markmið leiksins er að stelpurnar komist á endastöð með hjálp fólks sem þær hitta á leiðinni. Það voru glaðar stelpur sem streymdu inn í matsalinn eftir leikinn. Við ræddum um það hvað við höfum það gott á Íslandi og hvað það sé mikilvægt að við munum eftir þeim sem eiga um sárt að binda í bænum okkar. Í kaffinu var boðið upp á súkkulaðibitakökur og súkkulaðiköku ásamt mjólk. Eftir kaffi hélt venjuleg dagskrá áfram þar sem keppt var í brennó og íþróttum. Í kvöldmatinn var boðið upp á Sóða-Jóa en það er hakk í hamborgarabrauði. Eftir kvöldmat söfnuðust stelpurnar saman í kvöldvökusalnum þar sem við horfðum á High School Musical og borðuðum popp og fyrir hugleiðinguna fengum við smors og ávexti. Á hugleiðingunni lærðu stelpurnar um fyrirgefninguna og hvernig Guð fyrirgefur okkur og hreinsar syndir okkar. Það voru þreyttar en glaðar stelpur sem lögðust á koddann sinn og sofnuðu fljótt eftir að bænakonan endaði daginn með þeim enda sjaldan róleg stund í ævintýraflokki í Vindáshlíð.