Fimmtudaginn 30. júní komu 85 eftirvæntingarfullar og hressar stelpur í Vindáshlíð. Eftir ferðina úr Reykjavík í sólskinsprýdda náttúrufegurðina í Kjósinni flykktust stúlkurnar inn í matsal þar sem farið var yfir ýmsar reglur og hafist var handa við að skipta þeim í herbergi með sínum vinkonum. Eftir það fóru foringjar með þeim í herbergin og kynntu þær betur fyrir staðnum. Í hádegismatinn fengu stelpurnar súpu og hitaðar samlokur sem féllu vel í kramið.
Eftir hádegismat nýttum við veðurblíðuna og gengum upp að Brúðarslæðu. Hvað er betra en að skella sér úr borginni og ganga upp að fögrum fossi í sólskininu? Þegar stelpurnar komu úr göngunni hófst kaffitími þar sem þær fengu appelsínuköku, appelsínur og kex og svo sungu þær fyrir afmælisbarn dagsins. Eftir kaffi var brunaæfing og stóðu stúlkurnar sig með stakri prýði. Því næst hófst brennókeppnin og keppt var í húshlaupi og var þátttakan mjög góð. Einnig undirbjuggu stelpurnar ýmis leikrit og leiki fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn fengu þær svo plokkfisk, rúgbrauð og salat.
Stelpurnar voru einkar hressar á kvöldvökunni og skemmtu sér vel við að sýna og horfa á leikþætti og taka þátt í sjálfboðaliðaleikjum, skemmtilega subbulegum. Að kvöldvöku lokinni, eftir að hafa sungið hástöfum hina ýmsu Hlíðarsöngva, héldu stelpurnar út á brennu þar sem þær fengu að grilla sér sykurpúða við eldinn og gæða sér á banönum og kexi í kvöldkaffi undir berum himni. Himininn var eitt listaverk og stelpurnar undu sér vel við að syngja og spjalla við brennuna. Að því búnu fóru þær inn í setustofu þar sem þær hlustuðu á hugleiðingu og sáu leikþátt um systurnar Mörtu og Maríu og lærðu hversu mikilvægt það er að hlusta á Jesú. Síðan fengu þær sem vildu að bursta sig í læknum og þegar stelpurnar voru háttaðar hófst bænakonuleit þar sem herbergin fengu það verkefni að finna út hver sín bænakona væri í gegnum skemmtilegan spurningaleik. Þegar herbergin voru búin að hafa upp á bænakonunni sinni áttu þau stund inni á herbergi fyrir svefninn. Stelpurnar sofnuðu sælar og glaðar eftir viðburðaríkan dag í Vindáshlíð.
Bestu kveðjur úr Hlíðinni!