Stúlkurnar sváfu vel fyrstu nóttina í Vindáshlíð og voru flestar þeirra sofandi þegar starfsstúlka gekk um ganga og vakti þær klukkan níu. Í morgunverð fengu stúlkurnar súrmjólk, mjólk og morgunkorn og að honum loknum héldu þær út á fánahyllingu. Síðan var Biblíulestur þar sem þær sungu og lærðu ýmislegt um Biblíuna og æfðu sig í að fletta upp nokkrum versum í Nýja testamentinu. Í lok Biblíulestrar var þeim tilkynnt hvaða herbergi myndu keppa í brennó fyrir hádegi og einnig kepptu stelpurnar í kraftakeppni og gerðu vinabönd.

Í hádegismatinn var hakk, spaghetti og salat. Mikil óvissa tók við eftir matinn, stelpunum var sagt að klæða sig fyrir útiveru en hvað skyldi gera var á huldu. Stelpurnar söfnuðust saman inni í setustofu þegar bjallan hringdi og úti rigndi og þar fengu þær að vita að nú hæfist Amazing race. Herbergin stóðu saman sem lið í keppninni og leystu ýmsar þrautir, allt frá Sudoku til sveskjuleitar og stóðu sig með prýði.

Í kaffitímanum var boðið upp á jógúrtköku og heimabakað brauð. Að honum loknum var boðið upp á bros- og kraftakeppni, vinabandagerð, keppt var í brennó í íþróttahúsinu og þær sem vildu gátu farið í sturtu.

Í kvöldmatinn var bleikt Vindáshlíðarskyr og pizzabrauð úr ofni (lítill fugl heyrði hvíslað einhvers staðar í salnum ,,þetta er besta skyr sem ég hef fengið“). Stúlkurnar tóku vel til matar síns og fóru saddar og sælar úr matsalnum. Um kvöldið var svo Vindáshlíð’s Next Top Model þar sem herbergin unnu saman að því að greiða, farða og hanna kjól á nokkrar stelpur úr herberginu. Viðburðurinn fór fram inni í íþróttahúsi og var magnað að fá að fylgjast með öllu því hugmyndaflugi og hæfileikum sem stúlkurnar hafa. Módelin sýndu svo fjölbreyttan afraksturinn við lófatak stúlknanna. Því næst var kvöldkaffi þar sem boðið var upp á kex og mjólk.

Á hugleiðingu lærðu stelpurnar um mikilvægi þakklætis og að við getum þakkað Guði fyrir svo margt. Eftir hugleiðingu burstuðu stelpurnar sig inni á baðherbergjum og í læknum og voru fáar tilbúnar þegar bænakonur komu inn á herbergi því það var svo margt sem þurfti að ræða um eftir þennan viðburðarríka dag. Og einhvers staðar heyrði lítill fugl hvíslað ,,það var allt skemmtilegt í dag nema rigningin“.

Með kærri kveðju úr Hlíðinni fríðu.