Laugardaginn 2. júlí var enskur dagur í Vindáshlíð. Dagurinn hófst á morgunverði og enskum borðsöng og því næst stukku stelpurnar út á fánahyllingu. Að henni lokinni var biblíulestur þar sem fjallað var um sköpun Guðs og að við værum dýrmætar og mikilvægar í augum Guðs. Stelpurnar sungu og fóru í skoplegan teiknileik. Því næst var boðið upp á vinabandagerð, broskeppni, sumar skrifuðu kort og að sjálfsögðu var brennókeppnin í fullu fjöri.

Í hádegismatinn voru pylsur og djús og svo var stelpunum komið á óvart með hinum æsispennandi Hermannaleik. Í kaffitímanum fengu þær kryddköku og döðlubrauð. Eftir kaffitímann voru m.a. brennóleikir, vinabandagerð og einnig undirbjuggu stúlkurnar atriði fyrir kvöldið.

Í kvöldmat voru fiskibollur með hrísgrjónum, karrýsósu og salati og um kvöldið sýndu stúlkurnar listir sínar og hæfileika í keppninni ,,Vindáshlíð got talent“. Og það fór ekki á milli mála að stúlkurnar í Vindáshlíð eru ákaflega hæfileikaríkar! Þær sungu, dönsuðu og sýndu fimleikaatriði og einnig stigu dómarar keppninnar á stokk og sýndu dansatriði og fleira.
Því næst var kvöldkaffi og í kvöldkaffi voru ávextir og kex. Eftir tannburstun var ,,bænó“ og skömmu eftir að ró var komin á í svefnálmunum ómaði söngur foringjanna ,,hæ, hó, jibbí, jei og jibbí jei, það er komið náttfatapartý“. Stúlkurnar flykktust inn í matsal og dönsuðu og sungu og héldu svo inn í setustofu þar sem þær fengu að sjá fullt af skemmtilegum og fyndnum leikatriðum frá foringjunum og endaði kvöldið á íshressingu og sögu.

Kærar kveðjur úr Vindáshlíð!