Rútuferðin í gær gekk að óskum. Þoka á köflum í Hvalfirði en yndælis sól og blíðviðri þegar við komum í Hlíðina grænu. Eftir að allar stúlkurnar komu sér vel fyrir í herbergjum sínum, gæddum við okkur á gómsætri sveppasúpu og pizzabrauði í hádeginu. Eftir matinn fóru þær svo allar í gönguferð að Brúðarslæðu, sulluðu í læknum og borðuðu þar nesti. Í kvöldmat fengum við yndislegan plokkfisk og rúgbrauð. Leikgleðin tók svo völdin á kvöldvöku, allar stúlkur flykktust niður í íþróttahús og léku við foringjana. Allar skemmtu við okkur mjög vel og við þökkum fyrir vel heppnaðann dag í Vindáshlíð.
Í morgun vöknuðu sumar stelpurnar snemma og skokkuðu sér til heilsubótar, fengu síðan hafragraut, cheerios eða kornflex með stöllum sínum í morgunmat. Eftir mat var biblíulestur og svo hófst brennókeppnin niðri í íþróttahúsi. Við höfum það mjög gott, þökkum fyrir gott veður og góðar stundir í Hlíðinni.