Stúlkunum gengur vel að tileinka sér hefðir Vindáshlíðar. Þær syngja eins og englar og af krafti á við 80 stúlkur. Þær eru með eindæmum jákvæðar og skemmtilegar. Þessi yndislegi kósý flokkur líður samt allt of hratt, fjórar nætur búnar og einungis tvær eftir.
Þær gátu valið cherrios, kornflex eða hafragraut í morgunmat. Þær stukku svo allar að ná í nýja testamentið eftir að við þökkuðum fyrir morgunmatinn. Þær héldu svo röskar af stað upp að fána. Komu svo inn á Biblíulestur, Þar ræddum við hina heilögu þrenningu: Föður, sonar og heilags anda og hvernig þessi þrenning er samt ein heild. Eins og vatn getur verið frosið, fljótandi eða gufa en er samt alltaf vatn.
Í hádegismat voru hamborgarar með tómat- eða koteilsósu, papriku, káli og gúrkum. Stúlkurnar borðuðu af bestu list. Rétt um klukkan 14:00 var farið í gönguferð um skóginn í kringum Vindáshlíð. Í kaffitímanum eftir gönguna fá Hlíðarmeyjarnar bananabrauð og sjónvarpsköku.
Ein Hlíðarmey á afmæli í dag og hún fær af því tilefni sérstaklega skreytta köku á diski og við syngjum fyrir hana afmælislag. Stuðboltarnir í Barmahlíð og Hamrahlíð sjá um skemmtiatriði á kvöldvöku í kvöld og fara að undirbúa sig strax eftir kaffi.
Ekkert varð af náttfatapartýi í gærkvöldi en við eigum það til góða í kvöld uss… ekki segja frá.