Fimmtudaginn 14. júlí komu 76 hressar stelpur í Vindáshlíð, síðan bættist ein í hópinn og nú eru þær 77. Eftir rútuferð úr Reykjavík flykktust stúlkurnar inn í matsal þar sem farið var yfir ýmsar reglur og hafist var handa við að skipta þeim í herbergi með vinkonum sínum. Eftir það fóru foringjar með þeim í herbergin og kynntu þær betur fyrir staðnum. Sumar stúlkurnar voru ekki lengi að festa myndir og gera heimilislegt í herberginu sínu, enda margar hverjar þaulvanar Hlíðarmeyjar. Í hádegismatinn fengu stelpurnar ávaxtasúrmjólk og brauð.
Eftir hádegismat var farið í hefðbundinn Vindáshlíðar-ratleik þar sem stúlkurnar leysa verkefni og svara spurningum um ýmislegt (Til dæmis nöfn og aldur starfsmanna eftir minni eða ágiskun).
Eftir ratleikinn var kaffitími. Stúlkurnar fengu þá bananabrauð og bleika möndluköku. Eftir kaffi hófst hin alræmda brennókeppni sem áætlað er að standi yfir alla vikuna. Einnig var kraftakeppni í setustofunni fyrir þær sem höfðu áhuga.
Ef allar í herbergi taka þátt eða reyna sitt besta í öllum keppnum vikunnar (fyrir utan brennó, það er alveg sér) þá eiga þær möguleika á að vinna viðurkenningu sem íþróttaherbergi Vindáshlíðar í 6. flokk 2011.
Sú stúlka sem tekur þátt í öllum keppnum (hvort sem herbergið hennar geri það eða ekki) og nær flestum stigum yfir heildina verður kjörin íþróttadrottning 6. flokks 2011. Einnig verður keppt í innanhús-keppni, hárgreiðslukeppni, hæfileikakeppni og fleiru eftir því sem líður á vikuna. Úrslit úr öllum keppnum verða kynnt á veislukvöldi 19.júlí (sem verður síðasta kvöld flokksins, því haldið er heim miðvikudaginn 20. júlí).
Í kvöldmat fengu stúlkurnar indælis fiskrétt og grænmeti. Kvöldvakan fór svo fram í íþróttahúsinu og samanstóð af leikjum, söng og sprelli. Í kvöldkaffi fengu stelpurnar appelsínur, banana og mjólkurkex.
Kvöldinu lauk svo á hefðbundinni hugleiðingu, tannburstun og bænakonuleit. Eftir að stúlkurnar fundu sína réttu bænakonu (með nokkrum vísbendingum) var haldið inn í rúm. Ró var komin í húsið rétt fyrri miðnætti, en slíkt telur í innanhús-keppninni. Við þökkum fyrir gæfuríkan dag í Vindáshlíð og fyrir veðurspá sem lofar góðu.