Veðrið í gær 15. júlí, var eins gott og hugsast getur. Stúlkurnar voru vaktar kl. 09:00 í morgun og boðið upp á Cheerios eða Cornflex með mjólk eða súrmjólk í morgunmat. Fljótlega tóku þær eftir því að foringjar klæddust allir einhverju bleiku, því þema dagsins var bleikt. Eftir morgunmat náðu þær í nýja testamentið og sumar klæddu sig í eitthvað bleikt. Þær fóru svo upp að fána og síðan á Biblíulestur úti í Birkikirkju (sem er laut rétt aftan við kirkjuna okkar, Hallgrímskirkju í Vindáshlíð).
Eftir Biblíulestur var keppt í brennó niðri í íþróttahúsi en í húshlaupi upp við skála. Þær sem lokið höfðu keppni tóku syrpu í hoppukastalanum, aparólunni eða öðru í frjálsum tíma. Hringt var inn í hádegismat kl. 12:30 og fengu þær hamborgara og kartöflur í matinn.
Þær fengu svo tíma til kl. 14:00 til að gera sig tilbúnar í gönguferð, með sólarvörn, vatnsbrúsa, handklæði, sundföt og vaðskó. Þær fengu að velja á milli þess að fara í langa göngu upp að Þórufossi eða stutta göngu upp að Sandfellstjörn.
Þórufossgangan tókum það bil 3 tíma með stoppi ef gengið er af áhuga en leiðin er mjög jöfn og lítið upp í móti. Þær 11 stelpur sem völdu hana, tóku með sér nesti sem þær gæddu sér á í kaffitímanum.
Hinar 66 stúlkurnar völdu að fara að Sandfellstjörn. Sú ganga er aðeins upp í móti að rótum Sandfells en hún er ekki löng, þær komu aftur um kl 16:00. Í kaffitímanum fengu þær döðlubrauð og jógúrtköku sem var vel þegið eftir gönguferðina og buslið. Eftir kaffi hélt brennó keppnin áfram en stúlkurnar voru einnig í frjálsum leik og sumar að hvíla sig á sólinni inni á herbergi eða að gera vinabönd inni í setustofu. Enn aðrar voru að undirbúa sig fyrir hæfileikakeppnina Vindáshlíð got tallent. sem var á kvöldvöku. Margar stjörnur stigu á Vindáshlíðar-sviðið í kvöld, með ýmis atriði, leik, dans, og söng. Dómarar voru harðir en sanngjarnir og stelpurnar stóðu sig mjög vel. Í kvöldkaffi fengu stelpurnar mjólkurkex og ávexti.
Síðan eftir hefðbundna hugleiðingu þar sem stúlkurnar fengu að heyra tvær ólíkar sögur um það að þakka Guði fyrir það sem hann gefur okkur, fóru þær að hátta. Þær voru varla komnar í náttfötin þegar … hæ hó jibbí jei það var komið náttfatapartý!
Við þökkum fyrir frábæran dag í Vindáshlíð.