Fimmtudaginn 21. júlí mættu 65 hressar og glaðar stelpur í Vindáshlíð. Eftir rútuferð, sem gekk mjög vel fyrir sig, settust stelpurnar saman í matsalinn og hlustuðu á kynningu á reglunum í Vindáshlíð, og kynningu á starfsfólki. Þar næst var dvalarstúlkum raðað í herbergi undir stjórn Kristínar Rutar umsjónarforingja. Sérstök gát var að venju höfð á því að farið væri eftir óskum stelpnanna um herbergisfélaga. Margar eru að koma í Vindáshlíð í fyrsta skipti.
Í flokknum gista dvalarstúlkur í 8 herbergjum, sem bera falleg nöfn, t.d. „Gljúfrahlíð“ og „Birkihlíð“. Hvert og eitt herbergi hefur sína „bænakonu“ (foringja), og tvö herbergjanna í þessum flokki hafa meira að segja tvær bænakonur!
Eftir herbergjaskipan aðstoðaði hver og ein bænakona stelpurnar sínar við að ganga frá farangri, koma sér fyrir, og fór loks með þær í stutta skoðunarferð um skálann og umhverfið. Þegar öllu þessu var lokið voru margar orðnar afar svangar, og settust því fúsar til hádegisverðar. Í matinn var ljúffeng sveppasúpa og brauð með alls kyns áleggi. Stelpurnar tóku flestar vel til matar síns, og sungu borðsöng Vindáshlíðar fögrum röddum.
Eftir hádegi var farið í skemmtilegan ratleik um skála og umhverfi Vindáshlíðar, með það að sjónarmiði að dvalarstúlkur kynntust staðnum og gætu ratað um svæðið.
Eftir ratleikinn og frjálsan tíma var boðið upp á jógúrtköku, hafrasmákökur og djús í kaffitímanum, sem stelpurnar kunnu vel að meta.
Veðrið lék við okkkur í dag, og skein sólin bjart á köflum, og hlýtt var úti, og margar léku sér utandyra á stuttbuxum. Ákveðið var að setja hoppukastala með þrautabraut í gang úti á túni, við mikinn fögnuð margra. Einnig gengu sumar á stultum á túninu.
Löng hefð er fyrir æsispennandi Brennókeppni í hverjum dvalarflokki Vindáshlíðar. Strax á fyrsta degi flokksins hófst keppnin, undir stjórn Helgu brennóforingja. Stelpurnar tóku þátt af kappi, og skemmtu sér aðspurðar vel.
Í kvöldmat var plokkfiskur og salat, sem flestar stelpurnar gerðu góð skil.Í lok hvers matartíma aðstoða nokkrar dvalarstúlkur starfsfólkið við frágang, og stóðu þær sig afar vel í því í dag og réttu fúsar hjálparhönd.
Kvöldvaka kvöldsins fór fram í íþróttahúsinu, þar sem ýmsir fjörugir leikir voru á dagskrá. Stelpurnar tóku virkan þátt, og þar var mikið hlegið og hlaupið. Eftir allan hamaganginn voru ávextir og matarkex á boðstólnum í kvöldkaffi, áður en stelpurnar söfnuðust allar saman í setustofunni til að syngja saman og hlusta á hugleiðingu frá Ágústu foringja. Ágústa sagði söguna af Mörtu og Maríu, og því hve mikilvægt það er að gefa sér tíma til að hlusta á Guðs orð. Stelpurnar sungu svo kvöldsöng Vindáshlíðar, áður en margar fóru út að bursta tennurnar í læknum sem rennur um Hlíðina. Bænakonur enduðu svo þennan skemmtilega og viðburðaríka dag með léttu spjalli og kvöldbænum með stelpunum í sínum bænaherbergjum. Ró var komin í húsið að mestu leyti um miðnætti.
Myndir frá 1.degi flokksins er að finna
HÉR.

Við þökkum fyrir góðan dag í Vindáshlíð.
Með kveðju,
Soffía Magnúsdóttir
forstöðukona