Það var orðið glatt á hjalla í Vindáshlíð upp úr kl.8 á öðrum degi 7.flokks, föstudaginn 22.júlí. Margar stelpnanna vöknuðu af sjálfsdáðum áður en skipulögð vakning hófst (kl.9), og klæddu sig, burstuðu tennur og fengu sér svo sæti í setustofunni þar sem þær lásu í rólegheitum og spjölluðu þar til morgunverður var borinn á borð.
Það var ljóst að margar stelpur voru spenntar fyrir deginum, og einnig sælar eftir komudaginn. Nokkrar höfðu á orði að þeim fyndist skrítið að þær hefðu bara verið að koma í Vindáshlíð fyrst í gær, því þær væru búnar að gera svo margt skemmtilegt.
Eftir morgunmat lá leið stúlkanna í fyrstu fánahyllingu flokksins. Við fánahyllingu er íslenski fáninn dreginn að húni fyrir neðan kirkjuna okkar í Vindáshlíð, og fánasöngurinn „Fáni vor sem friðarmerki“ sunginn. Þar næst héldu stúlkurnar á Biblíulestur niðri í samkomusal, þar sem þær fræddust um Biblíuna og orð Guðs, og lærðu stuttlega að fletta upp í Nýja testamentinu. Þær stóðu sig afar vel í því. Einnig voru nokkrir fallegir söngvar sungnir, t.d. „Daginn í dag“, með góðum undirtektum.
Að fræðslunni lokinni stóð stelpunum til boða að kaupa póstkort til að senda ástvinum heima, gera vinabönd og taka þátt í ýmsum keppnum, t.d. broskeppni, auk þess sem brennókeppnin milli herbergja hélt áfram af krafti.
Loks var komið að hádegismat, þar sem ljúffengar pítur með grænmeti og hakki voru á boðstólnum. Eldhússtarfsmenn Vindáshlíðar brugðu á leik meðan maturinn var borinn fram, og komu fram í kostulegum búningum og með hárkollum!
Eftir hádegismat var svo haldið af stað í skógarferð, þar sem gengið var um fallega skóginn í nágrenni Vindáshlíðar.
Í kaffitímanum voru dýrindis veitingar í boði, kryddkaka með smjörkremi og nýbakaðar bollur, sem stelpurnar kunnu vel að meta. Eftir kaffi áttu nokkur herbergi að keppa í brennó úti í íþróttahúsi, og nokkrar stelpur settust niður í rólegheitum í vinabandagerð og teikningu.
Kl.18:30 var bjöllunni svo hringt í kvöldmat, en á boðstólnum var grjónagrautur og brauð með áleggi sem meðlæti. Það gladdi margar, sem sögðu að grjónagrautur væri uppáhaldsmaturinn þeirra.
Eftir kvöldmat var svo frjáls tími þangað til fyrsta „alvöru“-kvöldvaka flokksins hófst. Foringjarnir Ebba og Helga stjórnuðu kvöldvökunni, og dvalarstúlkur sáu um leikrit og skemmtiatriði með glæsibrag. Meðal annars var boðið upp á svokallaða „smökkunarkeppni“, sem felur í sér að smakka þarf ýmsar fæðutegundir upp úr litlum skálum á bakka, með bundið fyrir augu, giska hvaða mat sé um að ræða. Mörgum fannst þetta strembið, en smökkunin vakti engu að síður mikla kátínu.
Stelpurnar fengu sér þar næst kvöldkaffi, epli og kex, og mættu síðan rólegar í setustofu til að hlusta á hugleiðingu fyrir svefninn frá Bryndísi foringja. Eftir að kvöldsöngur Vindáshlíðar hafði verið sunginn, fóru margar stelpur út til að bursta tennurnar í læknum. Stelpurnar biðu svo eftir bænakonunum sínum í náttfötunum, til þess að enda daginn, hvert herbergi fyrir sig, með kvöldbænum og góðri samverustund.
Ró var komin í skálann um kl.23:45. Við hlökkum til morgundagsins, sem er þriðji dagur dvalarflokksins, og stefnum á að eiga ógleymanlegar stundir.
Myndir frá 2.degi eru komnar inn
hér á heimasíðuna.
Góð kveðja úr Vindáshlíð,
Soffía Magnúsdóttir
forstöðukona