Fallega sunnudagsmorgunninn 24. júlí sváfu stelpurnar í Vindáshlíð örlítið lengur en undanfarna daga, en voru komnar á fætur upp úr kl.9. Rok og rigning var úti, og því vinsælt að kúra aðeins lengur. Vindurinn gnauðaði svolítið í nótt, og nefndu margar að þær hefðu heyrt þónokkuð í honum.
Morgunverður var með sérstöku sniði, að því tilefni að nú eru stelpurnar búnar að sofa þrjár nætur í Vindáshlíð, og kallast þær því núna formlega Hlíðarmeyjar. Að því tilefni var Cocoa Puffs í boði, við góð viðbrögð.
Á sunnudögum er löng hefð fyrir því að halda messu í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð (kirkjunni sem er nokkra tugi metra frá aðalskálanum). Eftir morgunmat fóru því stelpurnar í snatri að undirbúa messuna með aðstoð, og skiptu sér í þrjá hópa; undirbúningshóp, leiklistarhóp og skreytingahóp.
Í hádegismat voru pylsur sem stelpurnar gerðu góð skil og voru glaðar yfir. Þær dunduðu sér innandyra þangað til kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð hringdu í messu, kl.14. Gefandi var að fylgjast með því hve allar vönduðu sig við undirbúning og framkvæmd messunnar, nokkrar tóku að sér að hringja kirkjuklukkunum, aðrar höfðu málað á steina og teiknað myndir til skreytingar, nokkrar höfðu samið bænir sem þær fóru með, og enn aðrar fluttu leikþátt um Jósef og bræður hans. Stelpurnar fræddust um sögu kirkjunnar í Vindáshlíð og stóðu sig vel í því að hlusta.
Eftir að messunni lauk var boðið upp á „kirkjukaffi“, þar sem meðal annars voru í boði kókoskúlur sem undirbúningshópurinn hafði útbúið. Einnig var kaka með smjörkremi og ljúffengar brauðbollur, en ein afmælisstelpa var í hópnum í dag. Vindáshlíðar-afmælissöngurinn var sunginn fyrir hana og afmælisbarnið blés á kerti!
Stelpurnar léku sér svo í frjálsum tíma eftir kaffi, og tóku m.a. þátt í sipp-keppni, léku sér úti eða voru í rólegheitum inni á herbergjum, eða gerðu vinabönd. Í kvöldmatinn var svo bragðgóður fiskréttur, hrísgrjón og salat. Kvöldvaka tók svo við, þar sem stelpurnar sýndu afbragðs-leikrit og fóru á kostum! Þær fóru svo í þagnarbindindi meðan þær fengu sér kvöldkaffi, epli og kex, til að komast í ró fyrir svefninn. Þær hlustuðu þar næst á hugleiðingu, þar sem sagan af Sakkeusi var sögð, sem ber þann boðskap að Guð fer ekki í manngreinarálit, heldur elskar alla jafnt. Notalegt var að syngja saman kvöldsöng Vindáshlíðar, og svo héldu stelpurnar í háttinn.
Þegar þær voru nýkomnar upp í rúm, tók heldur betur óvænt uppákoma við, því foringjarnir þeystust skyndilega fram á herbergjaganginn í halarófu með söng og glensi, íklæddar náttfötum, málaðar í framan og með tíkarspena í hárinu, því þá hófst náttfatapartý! Þetta gladdi stelpurnar afar mikið og þær skemmtu sér við að dansa við vinsæl popplög í matsalnum ásamt því sem þær horfðu á mörg skemmtileg atriði og sprell frá foringjunum. Þær fengu loks frostpinna og hlustuðu á rólega sögu meðan þær gæddu sér á þeim.
Kyrrð og ró var komin í húsið eilítið í seinna fallinu, um kl.00:30.
Nýjar myndir eru komnar inn á heimasíðuna.
Við sendum góða Vindáshlíðarkveðju!
Soffía Magnúsdóttir forstöðukona