Sunnudagur 7. ágúst 2011
Vakið var í Vindáshlíð kl. 10 í glampandi sól og dásamlegu veðri. Í dag er veisludagur og allir í sérstöku spariskapi. Eftir morgunstund var úrslitaleikur herbergjanna í brennó og eftir ávaxtajógurt með súkkulaði spæni og rúgbrauð í hádegismat hófst brennóleikurinn sem beðið hefur verið eftir – foringjar á móti flokknum, og svo foringjar á móti vinningsliðinu. Ótrúlegt en satt – foringjar töpuðu báðum leikjunum. Rétt fyrir kaffi var svo allur hópurinn kallaður saman við skálann og hófst mikið vatnsstríð og lauk ekki fyrr en allir voru orðnir vel vökvaðir. Kaffitíminn var úti í ljúfum blæ og glampandi sól þar sem súkkulaðikaka, bananabrauð, djús og vatn var í boði. Eftir hressinguna undirbjuggu íbúar herbergjanna þjónustu sem boðin var hverjum sem vildi. Hægt var að fá nudd, hárgreiðslu, naglalökkun og annað álíka. Klukkan sex mættu allar stúlkurnar prúðbúnar í setustofu.
Hópurinn fór allur út að „vefa mjúka dýra dúka“ sem felst í því að stúlkurnar mynda langa röð af pörum sem haldast í hendur og þræða sig í gegnum göng sem hendur hinna mynda.
Síðan hófst hátíðarkvöldverður í skreyttum matsal með huggulegum ljósum og ljúfri stemmningu. Foringjar sýndu listræna tilburði og afhentu verðlaunin. Eftir matinn fóru allir í sín herbergi og pökkuðu öllu. Þá var hringt til hátíðarkvöldvöku sem við héldum í matsalnum líkt var gert áður fyrr. Foringjar slepptu fram af sér beislinu, léku leikrit og voru með grín sem olli nánast magakrampa. Stemmningin var frábær, mjög mikið sungið og stúlkurnar alsælar. Eftir kvöldvökuna var boðið upp á ís og svo fóru við allar saman upp í kirkju, þar sem veislukvöldinu lauk. Það voru innilega glaðar og sælar stúlkur sem gengu til náða um miðnætti – þakklátar fyrir frábæra viku í Vindáshlíð, en líka tilbúnar að fara heim, hitta fólkið sitt og útskýra myndirnar sem eru á netinu.