Á veisludagi í Vindáshlíð var mikið um að vera. Stelpurnar kepptu lokaleikina í brennóinu og úrslit urðu ljós. Reynihlíð var brennómeistari 1.flokks Vindáshlíðar.
Áfram hélt íþróttakeppni og hlaupið var svokallað Hlíðarhlaup en þá er hlaupið niður að hliði sem er um það bil 1 kílómetri. Það tóku nánast allar stelpurnar þátt í því.
Hringt var til veislu kl.18 og fóru þá allar sem ein upp að fána þar sem hann var dreginn niður og svo var gengið í skrúðgöngu niður að húsi og mynduð hin rammgerðasta stelpuflækja. Sem betur fór tókst að leysa hana og boðið var í pizzuveislu. Stelpurnar stóðu sig alveg einstaklega vel í pizzuátinu og erum við verulega ánægðar með þær. Þær fengu stutta stund til þess að leggjast á meltuna og byrjaði svo kvöldvakan sem er ávallt í umsjá starfsfólks á veisludag. Starfsfólk Vindáshlíðar er ekki útskrifað úr neinum leiklistarskóla en það mætti svo sannarlega halda það, því tilþrifin voru slík. Kvöldvakan endaði svo á því að fluttur var Vindáshlíðaróður við undirspil okkar ágætu Evróvisjónfara Grétu Salóme og Jónsa.
Það tekur auðvitað á að syngja hátt og hlægja dátt og voru það þreyttar en sælar stelpur sem duttu út um 11 leytið og veisludagur að lokum kominn.

Vakið var hálftíma fyrr í morgun því aðstoða þurfti stelpurnar við að pakka og loka töskum. Það er sko ekki alltaf auðvelt.
Brennómeistararnir kepptu við starfsfólk sem hafði betur í þetta sinn. Starfsstúlkur okkar eru margar hverjar gríðarlega góðar í brennó enda eru þær Hlíðarmeyjar frá blautu barnsbeini og hafa fengið góða þjálfun í Vindáshlíð.
Hádegismatur var borðaður úti enda veðrið með eindæmum gott eins og hefur verið alla daga þessa flokks.
Eftir matinn var svo farið í ratleik.

Það er búið að vera mjög ánægjulegt fyrir mig að vera með þessum frábæru stelpum sem dvöldu í 1.flokk Vindáshlíðar 2012.
Allrabestu þakkir fyrir lánið á þeim.
Kveðja
Halla Gunnarsdóttir forstöðukona