Það var hress hópur stúlkna sem kom í Vindáshlíð fyrir hádegi mánudaginn 18. júní. Dagskráin tók fljótt á sig ævintýralega mynd því eftir hádegi var farið í skrúðgöngu með fána niður að Einbúa þar sem sungir voru ættjarðarsálmar og hlustað á fjallkonuna. 18. júní var því 17. júní í Hlíðinni.
Farið var niður í íþróttahús eftir kvöldmat og sprellað með fjörugri tónlist en svo var rölt niður að aparólu þar sem haldin var brenna. Sungnir voru söngvar með gítarundirleik, grillaðir sykurpúðar og hlustað á hugleiðingu um hvernig Guð svarar bænum.
Stelpurnar voru aldeilis hissa þegar þær voru kallaðar inn á setustofu eftir að bænakonur voru búnar að vera hjá þeim. Lagt var upp með leik sem hljómaði ekki mjög spennandi en í ljós kom að þetta var bara gabb og í raun var búið að skreyta matsalinn því 17. júní breyttist nú í aðfangadag jóla! Jólaálfar, jólasveinninn og tröllið (grinch) komu í heimsókn og voru með sprell.
Það voru því þreyttar stelpur sem fóru í bólið þetta kvöld.
Enn luma foringjar á morgum hugmyndum yfir hvað sé hægt að gera skemmtilegt og er spenningur því mikill hjá bæði dvalarstúlkum og starfsstúlkum.