Stelpurnar fóru á 3. degi í ævintýraleit að strympu. Draumastrumpur og letistrumpur höfðu týnt henni og fóru stelpurnar með strumpunum, vísbendinga á milli og fundu hana að lokum við Brúðarslæðu.

Veðrið hefur ekki verið upp á sitt besta , það hefur skipst á skyn og skúrir. Þegar stelpurnar voru að finna sig til fyrir gönguna var úrhelli svo þær fóru í pollaföt en þegar leggja átti af stað var komin mikil sól og því freistandi að skilja pollafötin eftir. Það var þó gott að þær gerðu það ekki því það rigndi eitthvað meira á þær í göngunni.

Um kvöldið fóru þær allar út í íþróttahús og völdu 2 stelpur úr sínu herbergi til að vera módel. Svo var farið að hanna og sníða kjóla en efniviðurinn var heldur undarlegur, nefnilega svartir rusalpokar, límband, kóosettpappír og álpappír. Það var virkilega gaman að sjá hvað hugmyndaflugið var mikið og eru foreldrar hvattir til að skoða myndirnar.

Um morguninn sáu þær stutt leikrit og útleggingu á hvers vegna mikilvægt er að geta fyrirgefið, Guð hefur nefnilega fyrirgefið okkur svo margt og því ætti það að vera okkur eðlislægt að fyrirgefa líka. Um kvöldið var fjallað um bænina og hvernig bænasvör geta verið mismunandi, en foringjarnir túlkuðu það á ógleymanlegan hátt.

Þær fengu morgunkorn um morguninn en grjónagraut og grillbrauð í hádegismat. Í kaffinu fengu þær heimabakaðar smákökur og bananabrauð úti á Brúðarslæðu. Um kvöldið fengu þær pasta og gúrkubrauð í matinn, ávexti í kvöldkaffinu en eftir að bænakonur fóru frá þeim var boðið upp á bíó og frostpinna og popp með því.

Þær fóru í rúmið um miðnætti og voru fljótar að sofna.

Verið er að taka upp nýtt kerfi við að setja inn myndir og er tæknin aðeins að stríða okkur, svo að fleiri myndir eru væntanlegar.
Myndir má finna hér: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157630195361136/