Undanfarnir tveir dagar hafa verið alveg dásamlegir. Sem betur fer hafa vandamál við internet verið það sem mest hefur bjátað á í flokknum, því nóg hefur verið að gera hjá stelpunum og starfsfólki í gleði og stuði. Við biðjumst velvirðingar á að ekki hafa komið jafn mikið af fréttum og myndum og við hefðum viljað.
Fyrir tveimur dögum fórum við í réttir en þar léku stúlkurnar kindur og foringjar drógu þær í dylka eftir hárlit og svo eftir fatalit. Það myndaðist góð stemning í þeim leik en á bakaleiðinni rigndi svolítið á hópinn og fengu þær síðustu dembuna yfir sig rétt við húsið sem reyndist hin mikla skemmtun. Yfir daginn var keppt í ýmsum greinum, t.d. tímaskyni, húlla og broskeppni. Það rigndi mikið þennan dag og fannst mörgum skemmtilegt að leika úti í rigningunni.
Um morguninn lærðu stelpurnar um það að þær eru undursamleg smíð Drottins og hann hefur tilgang með líf þeirra. Eins og segir í laginu: “Þökk þér faðir þú gjörðir mig eins og ég er”. Um kvöldið fengu þær að heyra um líf og starf Helgu Magnúsdóttur sem var forstöðukona og formaður stjórnar Vindáshlíðar í áratugi, en það hangir mynd af henni í matsalnum. Svo var þeim sagt meira frá því hve heitt Guð elskar þær og hversu dýrmætar þær eru.

Í gær skiptist hópurinn í fjóra undirbúningshópa fyrir kirkjuferðina, skreytingarhóp, leikhóp, sönghóp og undirbúningshóp (kveikja á kertum, sjá um söngbækur, kveikja á kertum, hringja kirkjuklukkum og biðja bænir). Guðþjónustan var eftir hádegismat og var hún mjög hátíðleg. Í henni var sýnt leikritið um týnda soninn og hvernig faðir hans fagnaði honum þrátt fyrir að hann hefði gert svo margt rangt í lífinu, eins er það með Guð og okkur, hann tekur okkur aftur opnum örmum ef við gerum iðrun fyrir syndir okkar.
Góð stemning var á setustofunni og í sólinni á tröppum hússins. Stelpurnar hamast við að hnýta vinabönd og eru margar orðar ansi flinkar.
Kvöldvökurnar hafa verið mjög fjörlegar hjá okkur og hefur hvert herbergi undirbúið atriði. Á hverju kvöldi eru um 3 herbergi með atriði en á veislukvöldi sjá foringjar um það.

Myndir úr flokknum má nálgast hér:
http://www.kfum.is/sumarstarf/vindashlid/vindashlid-ljosmyndir/