Veisludagur rann upp bjartur og fagur í Hlíðinni fríðu. Á biblíulestrinum var fjallað um fyrirgefninguna.

Mörg úrslit komu í ljós og bar Barmahlíð sigur úr bítum í brennókeppninni. Eftir kaffi var hárgreiðslukeppni. Þegar hringt var í veislukvöld var því hópurinn orðinn prúðbúinn og glæsilegur.

Í hátíðarkvöldverð voru pítsur. Skógarhlíð fékk bikar fyrir innanhúskeppnina. Skógarhlíð fékk ekki aðeins innanhúsbikarinn heldur líka íþróttabikarinn, en fáttítt er að sama herbergið vinni tvo bikara. Verðlaun voru einnig veitt fyrir ratleikinn, uppflettikeppnina og hinar ýmsu íþróttaþrautir.

Á kvöldvöku skemmtu foringjar með sínum einstöku hæfileikum og kom Greta Salóme óvænt í heimsókn! Hún spilaði á fiðluna í Vindáshlíðarlaginu (á hverju ári er gerður Hlíðartexti og dans við Eurovisionlag) og á eftir fengu stelpurnar að taka mynd af sér með henni og hún svaraði spurningum. Myndirnar munu birtast hér á vefnum og hægt er að nálgast ljósritaða eiginhandaráritun á Þjónustumiðstöð KFUM&KFUK á Holtaveginum en ljóst var að það tæki ansi langan tíma að gefa 80 eiginhandaráritanir.

Á hugleiðingu fengu stelpurnar ís og heyrðu hugleiðingu um hvað það þýðir að gefa Jesú hjartað sitt, en fengu stúlkurnar pappírshjarta til að skrifa nafnið sitt á og þær sem vildu fengu að gefa honum hjartað á táknrænan hátt.

Nú er kominn brottfarardagur og sólin vermir vangann. Við munum því að öllum líkindum borða hádegismat úti en það á að grilla pylsur. Í morgun kepptu brennómeistarar við foringja og svo keppti annað sætið og foringjar við alla.

Við stefnum á að leggja af stað héðan klukkan 3 svo að stelpurnar verða komnar í bæinn um klukkan 4. Takk fyrir frábæra viku stelpur! Þið eruð alveg frábærar og munið að Guð elskar ykkur og “vill veita yður vonarríka framtíð”.