Í dag var amerískur dagur! Útsof var því vakað var aðeins lengur í gærkvöldi út af náttfatapartýinu svo stúlkurnar fengu að sofa hálftíma lengur en venjulega. Í tilefni dagsins var stúlkunum boðið upp á alvöru amerískar pönnukökur með sýrópi og smjöri, og seríós og mjólk fyrir þá sem vildu. Að morgunmat loknum hylltu stúlkunar fánann og tóku svo þátt í liðakeppni í að safna saman spreki fyrir brennuna um kvöldið. Því næst fóru þær inn í morgunstund. Fram að hádegismat var keppt í brennó og langstökki. Í hádegismat var boðið upp á SloppyJoe með ýmsu meðlæti. Svo var komið að útiverunni sem að þessu sinni var niður við hlið þar sem stelpurnar voru klæddar í ruslapoka fyrir matarslag á móti foringjunum. Útbíaðar og sælar komu þær að aðalbyggingunni og voru þær sem vildu smúlaðar með brunaslöngunni. Þið getið rétt ímyndað ykkur stemninguna. Flestar stúlkunar kusu að fara í sturtu eftir hamaganginn og var því mikið að gera hjá sturtuvaktinni fram að kaffi. Í kaffitímanum var boðið upp á risastóra köku skreytt með bandaríska fánanum, döðlubrauð, djús og mjólk. Keppt var í brennó og langstökki. Óformlegur þjóðarréttur Bandaríkjanna, makkarónur með osti, var í kvöldmat ásamt salati. Blásið var óvænt í liðaleik fyrir kvöldvöku þar sem liðunum sex var safnað saman í keppni. Eitt lið í einu fékk að henda vatnsblöðrum í forstöðukonuna sem var klædd í furðubúning. Ein vatnsblaðra á hverja stelpu og eitt stig fyrir hverja blöðru sem hitti hana. Þá tók við kvöldvaka sem var með óhefðbundnu sniði. Kvöldvökusalnum var breytt í kvikmyndahús með risastórum skjá og sætum og dýnum. Stúlkunar horfðu á myndina Ella Enchanted og gæddu sér á poppi og ávöxtum. Daginn enduðu stúlkunar úti í skógi syngjandi við varðeld og forstöðukonan var með frumlega hugleiðingu og fékk nokkrar dvalarstúlkur til að hjálpa sér við að segja söguna um Jesú í bátnum. Auðvitað fengu þær sykurpúða til að grilla . Yndislegur dagur að kveldi kominn, hlaðinn viðburðum eins og ævintýraflokki sæmir.