Stúlkurnar vöknuðu hressar klukkan níu um morguninn og fengu kornflex, seríós, mjólk og súrmjólk í morgunmat. Þær fóru og hylltu fánann sem dreginn er að hún á hverjum morgni í Vindáshlíð á hæðinni uppi við kirkjuna. Því næst var morgunstund með biblíulestri í boði forstöðukonunnar. Fram að hádegismat var keppt í brennó enn á ný og íþróttakeppnirnar voru að þessu sinni húshlaup og stígvélaspark. Í hádeginu var boðið upp á kjötbollur, kartöflur, brún sósa og salat. Um það leyti fór að rigna. Fram að þessu hafði verið hið yndislegasta veður, hlýtt og skýjað. Hinn langþráði hermannaleikur var eftir mat og fór því fram í smá bleytu. Í honum er hlaupið er út um allt útisvæðið í æsilegri spennu. Stelpurnar voru vægast sagt búnar að spyrja mikið um hann svo gleðin leyndi sér ekki. Í kaffitímanum var gulrótarkaka, kanilsnúðar og djús og mjólk til að skola því niður. Keppt var í brennó fram að kvöldmat og húllakeppni. Útiloftið og hreyfingin hefur sitt að segja og kláruðu stúlkurnar heil ósköpin af fallega hvítu hrærðu skyri og brauði. “Vindáshlíð got talent” kallaðist hæfileikakeppnin sem stúlkurnar tóku síðan þátt í og atriðin voru stórbrotin. Altalað var hvað þetta væri kjarkmikill hópur og margar sem bjuggu yfir leyndum hæfileikum, einkum söng. Í kvöldkaffi voru ávextir og matarkex og svo fóru þær í setustofuna á hugleiðingu. Þær sem vildu fóru að bursta tennur niður við læk og biðu svo eftir bænakonunni sem aldrei kom. Þess í stað hoppuðu foringjarnir syngjandi eftir göngunum og sóttu þær í náttfatapartý. Mikið var sprellað, sungið, hoppað og híað eins og venjan er í náttfatapartý. Síðan fóru þær inn með bænakonunni sinni og áttu góða stund með henni. Frábær dagurinn að kveldi kominn.