Full rúta af yndislegum stelpum lagði af stað upp í Vindáshlíð. Stelpurnar spjölluðu mikið saman á leiðinni uppeftir og byrjuðu að kynnast. Fljótlega kom í ljós að nær allar voru að koma í fyrsta skipti í Vindáshlíð. Þær komu sér fyrir í nýju herbergjunum sínum og bjuggu um rúmin sín. Dagurinn byrjaði með trompi og eftir smá tölu frá forstöðukonunni fengu þær tækifæri til að kynnast staðnum í litlum hópum í fylgd foringja. Foringi fór með þeim um svæðið og sýndi þeim alla neyðarútganga og fór yfir ýmsar reglur og venjur staðarins. Í hádegismat fengu þær dýrindis plokkfiskur og grænmeti. Eftir hádegismat fóru stelpurnar í ratleik og hvert herbergi var saman í liði. Í kaffinu var boðið upp á jógúrtköku og kanilsnúða. Eftir kaffi var frjáls tími, kepptu herbergin sín á milli í brennó og íþróttakeppni dagsins var húshlaup. Í kvöldmatinn var grjónagrautur með kanil og rúsínum og brauð með tómötum og agúrkum. Síðan var frjáls tími fram að kvöldvöku. Herbergin Hamrahlíð og Barmahlíð voru með atriði á kvöldvökunni öllum til mikillar gleði. Mikið var um dýrðir og mikið sungið. Síðan var hugleiðing í setustofunni að loknu kvöldkaffi. Þær stúlkur sem vildu fengu að fara niður að læk að bursta tennur sem er mikið sport. Þær enduðu daginn með bænakonunni sinni inni á herbergi þar sem þær fóru saman yfir daginn. Eitthvað var um heimþrá en annars eru þær með eindæmum duglegar og flottar stelpur. Yndislegur hópur alveg.