Í morgun (fimmtudag), vöknuðu stelpurnar eftir sína þriðju nótt í Vindáshlíð. Dagurinn í dag er sérstakur og með hátíðarblæ vegna þess að eftir að hafa dvalist þrjár nætur í Vindáshlíð geta stelpurnar nú kallast Hlíðarneyjar, og eru hluti af stórum hópi kvenna og stúlkna sem hafa dvalið í Hlíðinni síðan sumarstarfið þar hófst fyrir meira en 50 árum.

 

Í tilefni af þessu voru stelpurnar vaktar á sérstakan hátt, en Sólrún og Anna Bergljót starfsmenn klæddu sig upp í búninga og vöktu stelpurnar með ljúfu fiðluspili og gamanmálum. Boðið var upp á Cocoa Puffs í morgunmatinn í tilefni dagsins, og vakti það lukku.

 

Eftir fánahyllingu skiptu stelpurnar sér í hópa til að undirbúa guðsþjónustu sem fór fram í dag í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð. Fjórir hópar lögðu kapp á að gera guðsþjónustuna sem fallegasta. Skreytingahópur sá um að úbúa teikningar og mála á steina til að skreyta kirkjuna með, undirbúnings-og bænahópur sá um að skrifa bænir, dreifa söngbókum, hringja kirkjuklukkunum, kveikja á kertum ásamt fleiru, leikhópur æfði og flutti leikþátt um dæmisögu Jesú um týnda soninn, og sönghópur æfði og söng tvö falleg lög, annað á íslensku og hitt á Swahili undir stjórn Kristínar umsjónarforingja.

Guðsþjónustan heppnaðist vel og stelpurnar voru stilltar og góðar í kirkjunni og sýndu mikla fagmennsku við undirbúninginn.

 

Stelpurnar hafa verið ótrúlega sprækar og hressar miðað við að þær fóru svolítið í seinna lagi að sofa í gærkvöldi, vegna þess að óvænt náttfatapartý var haldið eftir að stelpurnar voru búnar að hátta og á leið upp í rúm. Foringjarnir birtust allt í einu syngjandi á svefnherbergjaganginum með potta og sleifar syngjandi, og svo dönsuðu allar stelpurnar saman í matsalnum ásamt starfsfólkinu, uppi á borðum og úti um allt. Þá tóku við leikrit, söngur og skemmtiatriði í boði foringjanna, sem vöktu kátínu hjá stelpunum. Gærkvöldið endaði svo með því að allar fengu frostpinna og héldu síðan til herbergja.

 

 

Í kaffitímanum síðdegis í dag var boðið upp á kókosköku með súkkulaðikremi og hafrakökur. Eftir kaffi var ýmislegt skemmtilegt í boði, t.d. húlla-keppni, vinabandagerð, og nokkrir brennóleikir voru leiknir undir stjórn Karítasar. Stelpur úr nokkrum herbergjum voru einnig önnum kafnar við að undirbúa leikrit og atriði fyrir kvöldvöku kvöldsins.

 

Stelpurnar höfðu góða matarlyst í kvöldmatnum, og fengu svo að gera það sem þær kusu þar til bjallan hringdi á kvöldvöku.

Eftir kvöldvökuna tekur við kvöldkaffi þar sem stelpurnar fá ávexti, og svo mun Salóme foringi flytja hugleiðingu.

Við þökkum fyrir annan góðan dag í Vindáshlíð og sendum góðar kveðjur.

Á morgun er veisludagur, og hlökkum við mikið til hans!

Myndir eru væntanlegar hér á heimasíðuna.

 

Kær kveðja,

 

Soffía Magnúsdóttir

forstöðukona