Í morgun var það sem við köllum standandi morgunmatur en stelpurnar réðu því hvort þær mættu í morgunmat. Boðið var upp á Coco Puffs í tilefni af því að nú væru þær allar orðnar Hlíðarmeyjar þar sem þær væru búnar að sofa í þrjár nætur í Vindáshlíð. Á biblíulestri var rætt um þakklæti og hvað það væri mikilvægt að þakka fyrir það sem við höfum, líka það sem væri sjálfsagt. Hádegismaturinn var á réttum tíma en boðið var upp á pítur með kjúklinganöggum og grænmeti. Eftir hádegi var boðið upp á ýmislegt, t.d. málaðir bolir, guðþjónusta var undirbúin og hoppað á hoppudýnunni sem við fengum í gær. Í kaffitímanum fengu stelpurnar sér ýmist sjónvarpsköku, karmellulengjur, amerískar smákökur og súkkulaðiköku. Eftir kaffi hélt brennókeppnin áfram ásamt íþróttakeppnum og frjálsum tíma. Í kvöldmatinn var boðið upp á pítsur sem að stelpurnar voru mjög ánægðar með. Eftir kvöldmatinn fóru stelpurnar í Amazing Race sem að foringjarnir höfðu undirbúið og þeyttust út um allt að leysa alls kyns þrautir. Síðan fórum við upp í kirkjuna í Vindáshlíð, Hallgrímskirkju í Vindáshlíð, og áttum góða kvöldstund þar sem stelpurnar lærðu um góða hirðinn. Eftir hugleiðinguna í kirkjunni var brenna þar sem stelpurnar fengu að grilla nokkra sykurpúða og sungu saman. Fyrr um daginn höfðum við rætt um að sofa undir berum himni eða í tjaldi þar sem að mikil stemmning var fyrir því en þegar að kvöldi var komið var einfaldlega of kalt til að gera það. Í staðinn var boðið upp á að horfa á mynd í setustofunni og voru flestar sem að gerðu það. Það var því farið fremur seint að sofa en mikil gleði hjá stelpunum.

Bára Sigurjónsdóttir, forstöðukona