55 hressar stelpur eru samankomnar hér í Hlíðinni, og dvelja hér fram á laugardag.
Sumar hafa verið áður í Vindáshlíð, en margar eru að koma í fyrsta skiptið. Í upphafi fengu þær kynningu á staðnum, og voru leiddar um húsakynnin, til þess að átta sig á aðstæðum. Þær borðuðu dýrindis plokkfisk og rúgbrauð í hádeginu, og fóru svo í ratleik eftir hádegið. Eftir kaffi var húshlaup þar sem þær sem vildu fengu að spreyta sig á að hlaupa í kringum húsið, og einnig var byrjað að búa til vinabönd, sem er vinsæl iðja hér á bæ. Í kvöldmat var kjúklingasúpa sem rann ljúflega niður og síðan hófst hressileg kvöldvaka.
Kenndir voru Hlíðarsöngvar, leikin leikrit, og síðan var létt kvöldhressing. Eftir hana söfnuðust þær saman og fengu hugleiðingu úr Guðs orði, og sungu kvöldsönginn saman, þar sem segir svo fallega: „Sofið allar sætt og rótt, svefninn þreytu mýki. Gefi ykkur góða nótt, Guð í himnaríki“.
Bænakonurnar undirbjuggu þær síðan fyrir nóttina með samveru inni á herbergjum, þar sem spjallað er saman, farið yfir atburði dagsins og síðast en ekki síst beðið saman. Síðan sofnuðu þær þreyttar en sælar eftir viðburðaríkan dag.
Petrína Mjöll Jóhannesdóttir, forstöðukona