Á öðrum degi 8. flokks í Vindáshlíð vöknuðu stúlkurnar sprækar og glaðar. Eftir morgunverð var skundað upp að fánastöng og sungið meðan fáninn var dreginn að húni. Síðan mættu þær með Nýju testamentin sín á biblíulestur og fræddust um Guðs orð ásamt því að syngja og biðja.

Brennókeppnin sem stendur alla vikuna hófst og einnig var keppt í ýmsum öðrum íþróttagreinum. Eftir hádegismat var farið í gönguferð upp með læknum sem var skemmtileg og hressandi. Smá væta var í lofti en stelpurnar voru vel klæddar í hlífðarfötum og stígvélum enda spennandi að vaða í læknum. Sumar notuðu þá einnig tækifæri til að tína ber og stinga upp í sig enda um dýrindis góðgæti að ræða frá náttúrunnar hendi.

Í kvöldmat fengu þær grjónagraut og á kvöldvöku skemmtu þær sér við söng, leikrit og leiki. Þegar að háttatíma kom brast svo á með náttfatapartýi þar sem allar mæta í náttfötum og brugðið er á leik. Foringjarnir fóru á kostum sem alls kyns undarlegir karakterar og stelpurnar sungu sig algjörlega hásar.

Eftir svona viðburðaríkan dag var gott að halla sér á koddann og sofna vært inn í draumalandið.

Við minnum á að símatími fyrir foreldra er alla daga flokksins milli kl.11:30 og 12, í síma 566-7044.

Petrína Mjöll Jóhannesdóttir forstöðukona