Stelpurnar vöknuðu aðeins seinna í dag vegna þess að þær voru þreyttar eftir óvænta náttfatapartýið í gærkvöldi.

Eftir morgunverð var hafist handa við að undirbúa Guðsþjónustuna sem ævinlega er einu sinni í hverjum flokki. Stelpurnar völdu sér hópa til að vera í. Sumar voru í föndurhópi sem sá um að skreyta kirkjuna með fallegum myndum, aðrar voru í undirbúningshópi sem sá um að hringja kirkjuklukkum, kveikja á kertum og búa til bænir ásamt því að flytja þær. Í þriðja hópnum voru svo þær sem æfðu og fluttu leikgerð af Miskunnsama Samverjanum.

Fyrir hádegi var síðan boðið upp á hoppudýnu á íþróttahúsinu þar sem stelpurnar gerðu ýmsar kúnstir og léku sér af innlifun.

Í hádegimat var svo spaghetti og hakk sem þær borðuðu af bestu lyst þó það væri ekki „alveg eins og heima“.

Klukkan tvö var Guðsþjónustan þar sem þær tóku allar virkan þátt. Eftir það var frjáls leikur og útivera. Um kvöldið héldu svo stelpurnar áfram að sýna listir sínar hver fyrir annarri á kvöldvöku.