Á mánudaginn komu í Vindáshlíð 85 stelpur. Þá má með sanni segja að spennan í rútunum þegar við nálguðumst húsið hafi verið stórkostleg. Eftirvæntingin var gríðaleg enda margar að koma í fyrsta skipti í hina dásamlegu Vindáshlíð.  Á fyrsta degi komu stelpurnar sér fyrir, þeim var úthlutuð bænakona og hún sá um að sýna þeim allt svæðið bæði að innan og utan. Síðan var farið í ratleik sem gaf stelpunum meiri kost á að kynnast svæðinu. Eftir kaffi var hefðbundin dagskrá með brennókeppni, kraftakeppni og frjálsum tíma. Öll dagskrá fyrsta daginn seinkaði aðeins og því voru það ansi þreyttar en mjög sælar stelpur sem fóru í háttinn um kl 11.

Gærdagurinn var hefðbundin dagur í Vindáshlíð, það var vakið kl 9 og morgunmatur kl 9.30. Á biblíulestri lærðu þær um Biblíuna, hvað hún er gömul, hvað hún inniheldur margar bækur og rit. Eftir hádegismat var farið í íþróttahúsið í stað útiveru vegna þess að það var rok og rigning. Þar var farið í leiki og föndrað. Eftir kaffi var aftur farið í hið geysivinsæla brennó og haldin broskeppni.

Á hugleiðingu kvöldins var talað um þakklæti og við minntar á að vera duglegar að þakka Guði fyrir allt.

Þegar bænakonur áttu að koma, var stelpunum komið á óvart með náttfatapartý, þar var dansað upp á borðum við Eurovision lög, Justin Bieber og fleiri skemmtileg lög. Í náttfatapartýinu fengum við í heimsókn þrjá strumpa sem voru að leita að fjársjóð sem þau týndu sem reyndist vera ís og strumparnir voru svo góðir og deildu fjársjóðnum með stelpunum.

Í hádegismat var fiskipasta, í kaffinu var boðið upp á döðlubrauð og sjónvarpsköku, í kvöldmat var skyr og brauð, og í kvöldkaffinu var boðið upp á ávexti.

Til mín hafa komið nokkrar stelpur með áhyggjur af því að foreldrar haldi að flokkurinn komi tilbaka á föstudaginn. Ég sagðist ætla að setja það í fréttina að minna ykkur á að flokkurinn kemur tilbaka á laugardaginn, Rútan leggur af stað frá Vindáshlíð kl 3 á laugardaginn.

Kveðja úr Vindáshlíð!