Í dag komu hingað í Vindáshlíð áttatíuogfimm stórskemmtilegar stúlkur. Spenna og eftirvænting skein úr hverju andliti og var því fyrsta verk að raða í herbergi svo allar fengju að vera með þeim sem þær vildu. Eftir hádegismat, sem var ávaxtasúrmjólk með súkkulaðispæni og svo smurt brauð, var farið í ratleik til að kynnast staðnum og eftir kaffi hófst undirbúningur þeirra hópa sem sáu um leikrit og skemmtiatriði á kvöldvökunni. Veður var bjart og gott í dag þótt aðeins hafi blásið en stelpurnar nýttu hverja stund til að kynnast umhverfinu og hverri annarri. Í kvöldmatinn var píta með skinku og grænmeti að vild hverrar og einnar. Kvöldvakan var lífleg og ljóst að hér eru kraftmiklir söngvarar sem njóta þess að syngja Vindáshlíðarlögin, bæði í röddum og í keðjusöng. Vel gekk að komast í ró þótt í seinna lagi væri og kyrrð var í öllum herbergjum um hálftólf.
Kveðja, Auður Pálsdóttir forstöðukona