Í morgun voru allar stúlkur vaktar klukkan átta. Rétt fyrir morgunmat fór Auður forstöðukona með gítarinn og sótti hvert herbergið á fætur öðru syngjandi með hópnum hið stórskemmtilega lag Sokkar á tásur og langermapeysur. Frjáls útivera, brennókeppni og aðrir útileikir voru skipulagðir fram að hádegismat, sem að þessu sinni var spagettí. Fótboltakeppni var eftir kaffi ásamt heilmiklum undirbúningi herbergja fyrir kvöldvöku. Í kvöldmat var skyr og heitt pizzabrauð sem rann ljúflega niður í svanga maga. Á kvöldvöku slógu leikrit og leikir í gegn enda hér á ferð leikarar framtíðar íslenskra leikhúsa. Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu í setustofunni gengu stúlkurnar til náða og líkt og alla daga luku bænakonur deginum hver með sínu herbergi. Rúmlega ellefu voru allar þessar yndislegu stúlkur sofnaðar, þreyttar eftir útiveru og fjör af ýmsum toga.

Kveðja, Auður Pálsdóttir forstöðukona