Í dag vöknuðu stúlkurnar klukkan níu með bros á vör. Í morgunmat  var boðið upp á hefðbundið morgunkorn eins og seriós, kornflex og súrmjólk en að auki mátti fá kókópöffs – sem vakti mikla lukku. Eftir fánahyllingu strax eftir morgunmat var hópnum skipt í fernt sem hver um sig undirbjó guðsþjónustu sem haldin var í kirkjunni eftir hádegi. Einn hópur undirbjó skreytingar í kirkjunni, annar æfði sönglög til að flytja, þriðji undirbjó helgileik og fjórði skipulagði ýmislegt hagnýtt og létta hressingu (kókoskúlur) sem við fengum í kaffinu. Í hádegismat var lasagna sem sló í gegn. Eftir kaffi skelltu margar stúlkur sér í sturtu, aðrar sinntu hefðbundnum undirbúningi fyrir kvöldvöku, fóru í brennó í íþróttahúsinu eða tóku þátt í leikjum úti eða inni. Í kvöldmatinn var svo mexíkósk súpa með snakki, osti og tilheyrandi. Það kunnu þær svo sannarlega vel að meta.  Kvöldvakan var hlaðin velæfðum skemmtiatriðum og lyfti fjörugur söngurinn nærri þakinu af húsinu. Eftir hugleiðingu og kvöldkaffi bjuggu þær sig undir háttinn.  En þá gerðist hið óvænta. Náttfatapartý hófst með dúndrandi tónlist og dans. Rúsínan í pylsuendanum var svo syrpa af skemmtiatriðum starfsmanna. Þegar þessu lauk fengu allir ís og lesin var saga fyrir hópinn. Það voru því þreyttar en hæstánægðar stúlkur sem lögðust á koddann eftir viðburðaríkan dag.

Kveðja, Auður Pálsdóttir forstöðukona