Það var úrhellisrigning í morgun og dagskráin því inni fram að hádegi. Hópurinn var vakinn klukkan níu og eftir morgunmat og morgunstundina fengu stúlkurnar góða tíma til að setja bænir inn í bænabókina sína og skreyta þær að vild.  Í hádegismatinn var steiktar kjötbollur með öllu tilheyrandi og hurfu þær eins og dögg fyrir sólu ofan í glaðar skvísurnar. Eftir hádegi hafði létt til og sólin fór að skína. Áherslunni á útiveru, leiki og íþróttir var vel tekið. Eftir kaffi voru undirbúin leikrit fyrir kvöldvöku, haldin var íþróttakeppni, sumar fóru í sturtu og enn aðrar dúlluðu sér í vinabandagerð. Grjónagrautnum og brauðinu var síðan frábærlega vel tekið enda stelpurnar miklir orkuboltar sem þurfa reglulega fyllingu á tankinn. Eftir hressilega kvöldvöku, kvöldhressingu og lokasamveru dagsins í stofunni fóru þreyttar og glaðar stúlkur í rúmið – og voru snöggar að sofna.

Kveðja,
Auður Pálsdóttir, forstöðukona