Í dag var veisludagur og næstsíðasti dagurinn okkar saman. Fyrir hádegi var hefðbundin dagskrá með morgunstund eftir fánahyllingu og síðan tóku við úrslitaleikir í brennó þar sem hart var tekist á enda slungin lið sem áttust við. Í hádegismat var svo ótrúlega góður hakkréttur í hamborgarabrauði (Sloppy Joe) sem krafðist aðeins meiri þrifa á eftir en venjulega. Það gekk þó vel enda valboðaliðarnir þetta skiptið duglegir að þurrka af borðum. Eftir hádegismat keppti síðan vinningslið brennókeppninnar við foringja. Leikurinn var spennandi en foringjar unnu að lokum móðar og másandi. Í kaffinu var haldið upp á afmæli einnar stúlkunnar og tóku allar þátt í að syngja hinn eina sanna afmælissöng Vindáshlíðar. Eftir kaffi hófst hárgreiðslukeppni þar sem frumlegar greiðslur byggðar á ótrúlegu ímyndunarafli urðu til. Á sama tíma skreyttu foringjar matsalinn, röðuðu borðum á nýjan hátt og undirbjuggu veislu kvöldsins sem svo hófst klukkan hálfsjö. Þá komu stúlkurnar prúðbúnar og sætari en nokkru sinni. Við fengum heimagerða pizzu að hætti snillinganna í eldhúsinu og sætan drykk með fyrir þær sem vildu. Þá voru afhent voru verðlaun fyrir íþróttakeppnir, þátttökuverðlaun herbergja og viðurkenningar fyrir hárgreiðslur ýmiskonar, en allt var þetta ljósmyndað og sett á netið. Á kvöldvöku sýndu svo foringjar leikrit af eldmóð og snilld, fluttu fréttir úr einstökum herbergjum og léku rauðhettu byggða á fleygum setningum frá stúlkunum. Fallegur og kröftugur söngur hljómaði svo milli atriða. Eftir kvöldvöku var eins og hvert kvöld flutt hugleiðing út frá Guðs orði í setustofunni. Dagurinn í dag var margbrotinn og stúlkurnar allar glaðar og ánægðar. Þreyttar lögðust þær á koddann eftir ljúfa samverustund í sínu herbergi með sinni bænakonu.

kveðja,
Auður Pálsdóttir forstöðukona